Alþjóðasamtök flugfélaga (IATA) segir hugmynd innviðaráðherra um að taka upp svokallað varaflugvallargjald óréttláta, vanhugsaða, illa rökstudda og skaðlega. Þetta kemur fram í umsögn IATA um frumvarp innviðaráðherra um uppbyggingu og rekstur flugvalla og þjónustu við flugumferð, sem liggur fyrir Alþingi.
Samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi er áformað að öll flugfélög greiði 200 kr. gjald fyrir hvern farþega yfir tveggja ára aldri af hverjum fluglegg til og frá landinu og í innanlandsflugi. Þegar um millilendingu er að ræða verður gjaldið aðeins innheimt við brottför ef millilendingin varir skemur en 12 klukkustundir. Gjaldinu er ætlað að standa undir byggingu og viðhaldi varaflugvalla víða um land.
Ekki flugfélaga að fjármagna samgöngur í dreifbýli
IATA segir rökstuðning íslenskra stjórnvalda fyrir gjaldinu varla fyrir hendi og gagnrýnir að ekki liggi fyrir nein haldbær gögn sem sýni fram á nauðsyn eða ávinning af því. Þótt stofnunin telji það góðra gjalda vert að stjórnvöld tryggi samgöngur í dreifbýli sé flugfélögum og farþegum þeirra í raun falið að fjármagna innviðauppbyggingu sem ekki hefur verið sýnt fram á að nýtist þeim. Áformin skaði bæði samkeppnisstöðu flugfélaga og mismuni þeim. Þá tekur IATA fram að sambærileg gjöld þekkist ekki innan Evrópu.
Stofnunin bendir einnig á að fluggeirinn sé í sérlega viðkvæmri stöðu nú, í kjölfar kórónuveirufaraldurs og sé að koma undir sig fótunum á nýju. Þar af leiðandi sé óskynsamlegt að leggja aukin gjöld á greinina. Nærtækara væri að leyfa henni að blómstra enda séu jákvæð áhrif hennar á efnahags landsins ótvíræð.