Ríkisstjórn Kaliforníu hefur tilkynnt mótvægisaðgerðir vegna verðbólgunnar sem mælist nú 8,5% í Bandaríkjunum. Með aðgerðunum munu 23 milljónir íbúa fylkisins fá greiddar ávísanir upp á 350-1.050 dollara, en upphæðin fer eftir tekjum íbúa. Þetta kemur fram í grein hjá CBS.
Kostnaðurinn við mótvægisaðgerðirnar hleypur á 17 milljörðum dala, eða sem nemur rúmlega tvö þúsund milljörðum króna, en Gavin Newsom ríkisstjóri Kaliforníu tilkynnti í síðasta mánuði að afgangur fjárlaga Kaliforníu nemi 97,5 milljörðum dala.
Auk ávísananna ætla yfirvöld í Kaliforníu að veita frestun á greiðslu olíugjalds, en bensínverð er nú hvergi hærra í Bandaríkjunum en í Kaliforníu. Hinn svokallaði hjálparpakki inniheldur einnig aðgerðir sem eiga að hjálpa íbúum fylkisins að greiða leigu og rafmagnsreikninga.
Ávísanirnar eru hugsaðar til að hjálpa lág- og millitekjufólki. Íbúar fylkisins sem þéna yfir 250 þúsund dali á ári, eða um 33 milljónir króna, fá ekki greidda ávísun. Eins munu hjón sem þéna meira en 500 þúsund dali á ári, eða sem nemur 66 milljónum króna, ekki fá neitt í sinn hlut.