Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,1% í júní, samanborið við 0,7% hækkun í maí. Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 0,3% en hún hækkaði um 1,6% á síðustu sex mánuðum, að því er kemur fram í tilkynningu HMS.
Áfram hægist á árstakti vísitölunnar sem mælist nú 2,7% samanborið við 6,1% í maí og 8,6% í apríl. Þetta er ellefti mánuðurinn í röð þar sem árshækkun vísitölunnar, sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, dregst saman en hún fór upp í 25,5% í júlí 2022. Árshækkun vísitölunnar var síðast lægri í janúar 2020.
Sérbýlishluti vísitölunnar lækkaði um 0,9% á milli mánaða. Árshækkun á sérbýlishlutanum mældist 7,1% í júní samanborið við 9,0% í maí.
Verð á fjölbýli lækkaði um 1,2% í júní samanborið við 0,3% hækkun í maí. Árshækkun fjölbýlishlutans mælist nú 1,8% samanborið við 5,6% í maí.