Húsnæðisverð í Bretlandi lækkaði í fyrsta skipti í 15 mánuði í október, samkvæmt nýbirtum tölum lánveitandans Nationwide. The Times greinir frá.
Meðalverð lækkaði um 0,9% á milli september og októbermánaða. Árshækkun vísitölu Nationwide hjaðnaði úr 9,2% í 7,2% á milli mánaða.
Næsta boðaða vaxtaákvörðun Englandsbanka, seðlabanka Bretlands, er í vikunni og fastlega er gert ráð fyrir að bankinn hækki vexti. Englandsbanki hefur þegar hækkað stýrivexti úr 0,1% í 2,25% á síðastliðnu ári.
Meira en 85% af húsnæðislánum í Bretlandi eru með fasta vexti, flest til tveggja eða fimm ára. Stór hluti þeirra er með fastvaxtatímabil sem rennur út á næsta ári og því eru áhrif vaxtahækkana ekki kominn fram að fullu.
Eftirspurn eftir heimilum í Bretlandi hefur dregist saman um þriðjung á þeim fimm vikum frá því að fjáraukalög ríkisstjórnar Liz Truss voru kynnt, samkvæmt greiningu Zoopla sem var birt í vikunni.