Annan daginn í röð hækkaði Úrvalsvísitalan um meira en eitt prósent í ríflega 6 milljarða króna veltu. Hlutabréf 11 af 22 félaga aðalmarkaðarins hækkuðu í viðskiptum dagsins. Síminn leiddi hækkanir en gengi fjarskiptafélagsins hækkaði um 3,8% í 370 milljóna veltu og stendur í 10,9 krónum.

Hlutabréf Icelandair hækkuðu næst mest eða um 3% í 300 milljóna viðskiptum. Flugfélagið tilkynnti eftir lokun markaða í gær að sætanýting í ágúst hafi verið 89%. Gengi Icelandair stendur nú í 1,98 krónum á hlut eftir 6% hækkun í vikunni.

Líkt og í gær hækkuðu hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni. Arion banki hækkaði um 1,7% í 1,6 milljarða veltu. Gengi Arion stendur nú í 180,5 krónum og hefur ekki verið hærra frá arðréttindadegi bankans í mars síðastliðnum. Þá er hlutabréfaverð Íslandsbanka í hæstu hæðum í 132,6 krónum eftir 1,2% hækkun í dag. Gengi Kviku banka hækkaði einnig um 1,9%.

Hlutabréf Marels hækkuðu aftur í dag eða um 1,5% í 800 milljóna viðskiptum. Gengi Marels stendur í 526 krónum.