Icelandair skilaði 14,7 milljóna dala hagnaði á öðrum ársfjórðungi eða sem nemur 2 tveimur milljörðum króna. Til samanburðar tapaði félagið 3,5 milljónum dala á sama tímabili í fyrra. Í afkomutilkynningu flugfélagsins segir að afkoman á öðrum fjórðungi hafi síðast verið betri árið 2016.

EBIT hagnaður Icelandair nam 2,9 milljörðum króna sem er 2,7 milljarða króna aukning frá sama tímabili í fyrra. EBIT hlutfall félagsins var 5% á fjórðungnum og batnaði um 4,6 prósentustig á milli ára.

Icelandair tekur fram að spá um 4-6% EBIT hlutfall fyrir árið 2023 í heild sé óbreytt. Áfram er því gert ráð fyrir að skila hagnaði á árinu 2023.

Rekstrartekjur Icelandair á fjórðungnum námu 414 milljónum dala, eða um 57 milljöðrum króna, og jukust um 26% á milli ára. Rekstrartekjur félagsins hafa aldrei verið meiri á öðrum fjórðungi. Jafnframt var slegið met yfir einingatekjur á öðrum fjórðungi en þær námu 12 krónum eftir 8% vöxt á milli ára.

„Við erum stolt af því að skila bestu rekstrarniðurstöðu félagsins í öðrum ársfjórðungi síðan 2016,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.

„Sterk tekjumyndun, sögulega há sætanýting og met tekjur í farþegaleiðakerfinu skilaði okkur næstum tveggja milljarða króna hagnaði. Lægri eldsneytiskostnaður vegna hagkvæmni Boeing 737 MAX vélanna og lægra eldsneytisverðs hafði einnig góð áhrif á afkomu félagsins. Þar að auki gekk leiguflugstarfsemi okkar áfram vel og skilaði góðri arðsemi í fjórðungnum.“

Í tilkynningunni segir að sjóðstreymi hafi verið öflugt og lausafjárstaða félagsins sé nú sú sterkasta í sögu Icelandair. Lausafjárstaða félagsins í lok júní nam 521 milljónum dala eða um 71,3 milljörðum króna.

Tap af fraktstarfseminni á fjórðungnum

Bogi segir að seinkun á innkomu flugvéla í rekstur fyrir háönnina hafi leitt færri tiltækra véla en lagt var upp með og leigði félagið því flugvélar í júní til að halda uppi áætlun sinni. Seinkun á innkomu flugvélanna leiddi til 1,1 milljarðs króna einskiptiskostnaðar.

Icelandair segir að fraktstarfsemi félagsins hafi verið krefjandi og haft neikvæð áhrif á afkomu fjórðungsins. Tekjur af fraktstarfseminni drógust saman um 8,9% á milli ára og námu 22 milljónum dala eða um 3 milljörðum króna.

„Fraktstarfsemi félagsins var áfram krefjandi en við höfum fulla trú á því að við náum að snúa þeim hluta rekstrarins við á næstu mánuðum með áherslu okkar á bætta arðsemi,“ segir Bogi.

Bókunarstaðan sterk

Á fyrstu sex mánuðum ársins kynnti Icelandair fimm nýja áfangastaði, bætti sex flugvélum við flotann, flutti 1,8 milljónir farþega og tók á móti hátt í 1.200 nýjum starfsmönnum. Bogi segir að horfurnar fyrir seinni hluta ársins séu góðar og bókunarstaða sterk, sérstaklega frá Norður Ameríku.

„Búist er við að þessi þróun muni hafa áhrif á fargjöld og tekjuvöxt á einhverjum mörkuðum seinni hluta ársins. Við erum hins vegar í sterkri stöðu, nú sem fyrr, til að laga okkur að markaðsaðstæðum hverju sinni með öflugum innviðum, mjög sterkri lausafjárstöðu og framúrskarandi starfsfólki.