Icelandair hefur ákveðið að lengja flugtímabilið til Rómar og Nice á næsta ári. Borgirnar voru kynntar sem nýir sumaráfangastaðir fyrr á þessu ári og hófst flug 6. júlí. Flugfélagið hefur nú ákveðið að hefja flugið fyrr árið 2023, 24. mars til Rómar og 8. júní til Nice.
Icelandair segir að Íslendingar hafi tekið vel í áfangastaðina og viðtökur hafi einnig verið góðar í flugi frá borgunum til Íslands og áfram yfir hafið.
„Við höfum eflt flugáætlun okkar jafnt og þétt undanfarna mánuði og það er mjög ánægjulegt að tilkynna um lengra flugtímabil til Nice og Rómar. Við kynntum þessa tvo nýju áfangastaði á þessu ári og viðtökurnar voru strax afar góðar. Því töldum við fulla ástæðu til að lengja ferðatímabilið og gefa Íslendingum tækifæri til að lengja vorið,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, í tilkynningu.
Flugtímabil:
Róm:
- Ferðatímabil og tíðni:
- 24.mars - 12.maí, flogið tvisvar í viku á þriðjudögum og föstudögum.
- 14.maí - 1.júní, flogið tvisvar í viku á miðvikudögum og sunnudögum.
- 1.júní - 31.október, flogið þrisvar í viku á miðvikudögum, föstudögum og sunnudögum.
- Flogið í morgunflugi – brottfarartími frá Keflavík klukkan 08:30.
Nice:
- Ferðatímabil og tíðni:
- 8.júní - 4.september, flogið tvisvar í viku á fimmtudögum og mánudögum.
- Flogið út seinni partinn – brottfarartími frá Keflavík klukkan 16:25.