"Ímynd Íslands hefur áhrif á þá aðila sem taka ákvarðanir varðandi staðsetningu gagnavera. Útilokunaraðferðinni er beitt og einn stór þáttur í því ferli er áhætta í tengslum við náttúruhamfarir. Styrkleikar Íslands felast í kalda loftinu, raforkuöryggi og umhverfisvænni orku“. Þetta sagði Philip Schneider, forseti Selectors Guide Guild, í erindi sínu á fundi Landsvirkjunar sem haldinn var á Grand Hótel Reykjavík í dag undir yfirskriftinni, „Gagnaver í leit að staðsetningu“. Fundurinn er liður í fundaröð í tilefni af 50 ára afmæli Landsvirkjunar. Á fundinum var fjallað um þarfir gagnaversiðnaðarins og styrkleika og veikleika Íslands sem staðsetning fyrir gagnaver. Um 150 manns sóttu fundinn og var honum streymt beint á vefsíðu Landsvirkjunar.
Fram kemur í tilkynningu að Philip sagði marga góða kosti við það að reisa gagnaver hérlendis en það vissu fáir af þeim. Í erindi sínu útskýrði hann aðferðafræðina að baki staðarvali gagnavera.
Grunnupplýsingarnar þurfa að vera til staðar á netinu og allir ferlar þurfa að vera í lagi. Hann talaði jafnframt um að staðarákvörðun byggist á því að lágmarka alla áhættu í rekstri gagnavera. Hérlendis væru margir óvissuþættir hvað varðar ferlana sem snerta uppbyggingu gagnavera. Aðferðarfræðin væri sú sama á alþjóðavísu en í flestum tilvikum sé verið að leita eftir öruggu og sveigjanlegu viðskiptaumhverfi, tæknimenntuðu starfsfólki, góðum samgöngum, stöðugleika í stjórnarfari, lítilli áhættu á náttúruhamförum, umhverfisvænni og öryggri orku.
Mikilvægt tækifæri fyrir Ísland
Þátttakendur í pallborðsumræðum ræddu frekar um þarfir gagnaversiðnaðarins og hvað þurfti að bæta hérlendis til þess að Ísland væri samkeppnishæft. Allir voru sammála um að það væru góð viðskipti að laða til okkar gagnaver. Þáttakendur í umræðunum ásamt Philip Schneider voru Björgvin Skúli Sigurðsson, framkvæmdastjóri markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun, Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri hjá PwC, Guðbrandur R. Sigurðsson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs hjá Opnum kerfum, Örn Orrason, yfirmaður sölu- og viðskiptaþróunar hjá Farice. Elínrós Líndal, viðskiptastjóri Samtaka gagnavera á Íslandi, stýrði fundi og pallborðsumræðum.
Björgvin Skúli Sigurðsson hjá Landsvirkjun, talaði um mikilvægi þess að efla samstarf og upplýsingagjöf innan geirans. Mikil eftirspurn er eftir rafmagni frá Landsvirkjun og fjölmörg fyrirtæki og verkefni eru að skoða Ísland við staðarval. En samkeppnin um gagnaver er mikil og hagsmunir allra á Íslandi að taka faglega og vel á móti þessum aðilum. Halldór Þorkelsson, framkvæmdastjóri hjá PwC, sagði að það væri mikilvægt að samanburðartölfræði væri aðgengileg og að mælingar væru áreiðanlegar.