Rannsóknir á kvikasilfursmagni í urriða í 12 stöðuvötnum á Íslandi sýna að hverfandi líkur eru á því að jarðvarmanýting á Nesjavöllum hafi nokkur áhrif á urriðastofninn í Þingvallavatni. Greint er frá þessu á vefsíðu Orkuveitu Reykjavíkur sem á og rekur umrætt jarðhitaorkuver.

Dr. Guðjón Atli Auðunsson, sem stýrði rannsókninni, telur náttúrulegar aðstæður líklegustu skýringuna á því að fjögur vötn skera sig úr hvað varðar aukið kvikasilfur og tengist m.a. því að urriðinn í þeim standi ofar í fæðukeðjunni en í öðrum vötnum sem rannsóknin náði til.

Evrópusambandið hefur sett hámarksgildi fyrir kvikasilfur í fiski og fiskafurðum og gilda þessi hámörk á Íslandi. Um tvo flokka hámarksgilda er að ræða, þ.e. annars vegar 0,5 mg/kg sem gildir um flestar fiskitegundir þ.á.m. urriða og hins vegar 1,0 mg/kg sem gildir um ákveðnar fiskitegundir eins og t.d. túnfisk, stórlúðu, allar hákarlategundir, steinbít, karfa, búrfisk, blálöngu og geddu.

Bent er á að urriði í Þingvallavatni verður öðrum urriðum stærri og þegar hann hefur náð um 70 sentímetrum að lengd sé hann 6-7 ára gamall. Í slíkum fiski aukist nokkuð líkur á að hann mælist hærri í kvikasilfri en lægri hámarksgildið fyrir fisk og fiskafurðir segir til um.

Dr. Guðjón Atli, sem átt hefur sæti í Vísindanefnd Matvælaöryggisstofnunar Evrópu um aðskotaefni, telur jafnframt að nýlegar viðvaranir við neyslu Þingvallaurriðans séu orðum auknar. Telur hann að þær viðvaranir sem einkaaðilar hafa gefið út varðandi neyslu Þingvallaurriðans séu ekki nægilega vel grundaðar. Um leið bendir hann á að þessi sérstæði fiskistofn sé viðkvæmur. Í því ljósi sé ástæða til þess að sleppa stórum urriða, bíti hann á, fremur en að hirða hann til átu.