Iceland Seafood International (ISI) skilaði 20,3 milljóna evra tapi á árinu 2023 eða sem samsvarar tæplega 3 milljörðum króna. Tapreksturinn má að mestu leyti rekja til breska félagsins Iceland Seafood UK, sem samstæðan seldi í september síðastliðnum. ISI birti ársuppgjör eftir lokun markaða í dag.

Iceland Seafood International (ISI) skilaði 20,3 milljóna evra tapi á árinu 2023 eða sem samsvarar tæplega 3 milljörðum króna. Tapreksturinn má að mestu leyti rekja til breska félagsins Iceland Seafood UK, sem samstæðan seldi í september síðastliðnum. ISI birti ársuppgjör eftir lokun markaða í dag.

Mikill taprekstur hjá breska félaginu hafði reynst samstæðu ISI mjög erfitt fyrir. Um sama leyti og verið var ganga frá sölunni á dótturfélaginu var tilkynnt um að Bjarni Ármannsson myndi láta af störfum sem forstjóri ISI og að hann hefði selt 10,8% eignarhlut sinn til Brims á 1,7 milljarða. Ægir Páll Friðbertsson tók við sem forstjóri samstæðunnar.

Um miðjan desember síðastliðinn lauk ISI tæplega eins milljarðs króna hlutafjáraukningu til að styrkja fjárhagsstöðu félagsins eftir taprekstur síðustu tveggja ára.

Í plús á fjórða ársfjórðungi

Eftir að hafa tapað rúmum 3 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum ársins skilaði ISI hagnaði upp á 403 þúsund evra, eða um 60 milljónir króna, á fjórða ársfjórðungi. Þetta er í fyrsta sinn frá þriðja ársfjórðungi 2022 sem félagið skilar hagnaði eftir skatta.

Sala félagsins á fjórðungnum nam 112 milljónum evra, eða um 16,6 milljörðum króna á gengi dagsins, og jókst um 11% frá sama tímabili ári áður.

Í kauphallartilkynningu ISI segir Ægir Páll að árið 2023 hafi verið krefjandi Iceland Seafood og starfsfólk þess. Árið hafi einkennst af miklum verðsveiflum og óvissu á mörkuðum félagsins.

Ægir Páll segir að eftirspurn hafi aukist á fjórða ársfjórðungi eftir litla sölu á öðrum og þriðja ársfjórðungi. Markaðsaðstæður hafi batnað undir lok síðasta árs en geti þó ekki enn sem komið er talist vera í eðlilegu horfi. Hann gerir ráð fyrir að óvissa á mörkuðum minnki á síðari helmingi þessa árs.