Bjarni Ármannsson, forstjóri Iceland Seafood International (IS), mun láta af störfum eftir að hafa gegnt stöðunni í fimm ár. Ægir Páll Friðbertsson hefur verið ráðinn nýr forstjóri Iceland Seafood.

Samhliða þessu hefur Sjávarsýn, fjárfestingarfélag Bjarna, selt allan 10,8% eignarhlut sinn í félaginu til útgerðarfélagsins Brims á 1.644 milljónir króna. Gengið í viðskiptunum var 5,3 krónur á hlut.

Stjórn Iceland Seafood International mun boða til hluthafafundar á næstu vikum, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

„Ég mjög þakklátur fyrir tækifærið að leiða Iceland Seafood síðustu rúmu fimm árin,“ segir Bjarni og bætir við að tíminn sinn hafi einkennst af sveiflukenndu rekstrarumhverfi sem á köflum reynst afar krefjandi.

Hann segir Iceland Seafood þó vera með mikil tækifæri og í sterkri stöðu til að vaxa og vera arðbært.

Frá Brimi til ISI

Ægir Páll hefur starfað sem framkvæmdastjóri Brims undanfarin fimm ár og starfaði þar áður sem framkvæmdastjóri hjá Útgerðarfélagi Reykjavíkur í þrjú ár. Þar áður var hann framkvæmdastjóri hjá Ísfélagi Vestmannaeyja í níu ár.

Ægir Páll tekur við starfi forstjóra Iceland Seafood þann 1. nóvember næstkomandi.

„Ég er mjög ánægður að taka við stjórn Iceland Seafood,“ segir Ægir Páll í tilkynningunni. „Fyrirtækið hefur byggt upp leiðandi stöðu í Evrópu og hefur sýnt í langan tíma framúrskarandi árangur í gæðum, nýsköpun og áreiðanleika.“

Ægir Páll Friðbertsson, nýráðinn forstjóri Iceland Seafood.

Erfiður rekstur á síðustu misserum

Rekstur Iceland Seafood hefur gengið erfiðlega að undanförnu. ISI hefur lýst því að verðbólga hafi gert félaginu erfitt fyrir en á ýmsum sviðum hafi reynst erfitt að velta kostnaðarhækkunum út í verðlag.

Jafnframt var mikill taprekstur hjá breska dótturfélaginu Iceland Seafood UK. Eftir strembið söluferli tilkynnti ISI í lok ágúst síðastliðnum um sölu á breska félaginu til danska sjávarafurðafyrirtækisins Espersen A/S.

Í uppgjöri ISI fyrir annan ársfjórðung kom fram að neikvæð áhrif vegna breska félagsins á árinu 2023 væru áætluð um 15 milljónir punda eða um 2,5 milljarðar króna.

Iceland Seafood tapaði um 2,2 milljörðum króna á fyrstu sex mánuðum þessa árs og um 1,5 milljörðum króna á árinu 2022.

Hlutabréfaverð Iceland Seafood hefur lækkað töluvert á síðustu tveimur árum. Gengi félagsins stóð í 5,3 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar á föstudaginn en til samanburðar fór það hæst í 17,8 krónur í maí 2021.