Útlánavextir íslensku viðskiptabankanna eru allt að 0,96–1,15 prósentustigum hærri en gerist og gengur annars staðar á Norðurlöndum vegna svokallaðs „Íslandsálags“, samkvæmt úttekt sem ráðgjafarfyrirtækisið Intellecon vann fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu.

Sé það yfirfært á 50 milljón króna lán kann það að þýða um 500 þúsund krónur á ári í viðbótarvaxtakostnað. Þó er bent á að ákvarðanir um útlánavexti á hverjum tíma séu ávallt ákvörðun hvers lánveitanda fyrir sig.

Íslandsálag á í þessu tilviki við um allar þær álögur sem lagðar eru á innlend fjármálafyrirtæki í formi sértækra skatta, hærri eiginfjárkrafna og  óvaxtaberandi bindiskyldu. Umtalsverður hluti af hinu reiknaða Íslandsálagi er rakinn til ákvarðana stjórnvalda.

„Þetta eru sérstakar álögur og sérstök skilyrði sem eru sett á þessi fjármálafyrirtæki hér á landi umfram það sem gengur og gerist í nágrannalöndunum, sem stuðlar að  hærra vaxtastigi,“ segir Gunnar Haraldsson, framkvæmdastjóri Intellecon.

Til að leggja mat á Íslandsálagið er gefin sú forsenda að áhrif af álögum komi einungis fram í útlánavöxtum og þar með í hærri vaxtamun þótt ætla megi að einhver hluti þess sé borin af eigendum bankanna t.d. í formi lægri arðgreiðslna.

Í skýrslunni er bent á að álagið gæti verið mismunandi milli banka, lána og lántakenda og að sumir bankar gætu brugðist því við með öðrum hætti, svo sem með lækkun innlánsvaxta og hagræðingu.

Fjallað er nánar um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.