Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,1% í 4,5 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni sem hækkuðu allir í viðskiptum dagsins.

Íslandsbanki leiddi hækkanir en gengi bankans hækkaði um 7% og stendur nú í 129 krónum á hlut. Dagslokagengi Íslandsbanka hefur ekki verið hærra frá því í byrjun nóvember. Gengi Kviku banka, sem óskaði á dögunum eftir samrunaviðræðum við Íslandsbanka, hækkaði einnig um 2% og stendur nú í 20,0 krónum á hlut.

Gengi Íslandsbanka hefur nú hækkað um 10,3% og Kviku um 7,5% frá því að Kvika tilkynnti eftir lokun markaða á fimmtudaginn síðasta um ósk sína um að hefja samrunaviðræður. Arion banki hefur einnig hækkað 5% frá lokun Kauphallarinnar á fimmtudaginn.

Alvotech hækkaði um 3,9%, næst mest af félögum aðalmarkaðarins. Gengi líftæknifyrirtækisins stendur nú í 1.870 krónum á hlut eftir 26% hækkun í ár.

Eimskip og Icelandair lækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins en gengi félaganna beggja lækkaði um 2,6%. Gengi Icelandair stendur nú í 2,08 krónum.