Íris E. Gísladóttir, rekstrarstjóri og einn stofnanda menntatæknifyrirtækisins Evolytes, segir hindranirnar sem einkafyrirtæki í menntatækni standi frammi fyrir séu kerfislægar. Skortur á fjármagni er stór þáttur en nær ómögulegt sé fyrir fyrirtæki sem vilja koma með lausnir að afla sér tekna á Íslandi. Íris telur að í hið minnsta eitt til tvö fyrirtæki fari á hausinn á ári vegna þessa, jafnvel áður en að þau ná að leggja af stað í sinni vegferð.

Sjálf hefur hún fengið að heyra að hún sé eiginhagsmunasinni þegar hún hefur talað fyrir þessum málum, sem sé fjarri sannleikanum. Fyrirtækin séu fyrst og fremst að þessu því þau vilji bæta námsárangur barna og framtíð skólakerfisins.

„Ef mig langaði til þess að verða rík þá hefði ég valið mér eitthvað annað til að gera en að vera í menntatækni á Íslandi. Eins og er, ef að kerfið breytist ekki, þá gæti ég ekki mælt með þessari vegferð fyrir aðra,“ segir Íris en til þess að skapa fyrirtækinu rekstrargrundvöll er það leiðandi á alþjóðlegum markaði.

Nánast öll samanburðarríki Íslands eru með námsgagnakaup á opnum og samkeppnishæfum markaði auk þess sem hærra hlutfall af heildarútgjöldum ríkisins fari til námsefnisgerðar. Þar séu börn einnig komin lengra en hér á landi, meðal annars í svokölluð um STEM-greinum.

„Maður horfir ár eftir ár á versnandi niðurstöður úr alþjóðakönnunum og það má deila um hvort það sé eitthvað sem við viljum elta, en ég sé ekki afhverju íslenskir nemendur ættu ekki að geta staðist sömu kröfur og börn erlendis. Það er náttúrulega ekki gott fyrir íslenskt samfélag og framtíðar hagsæld landsins ef að við erum að horfa upp á versnandi námsgetu nemenda.“

Nauðsynlegt sé að taka ákvörðun til framtíðar í málaflokknum og takast á við skyldu námið þannig að það veki raunverulegan áhuga hjá nemendum til þess að læra. Breytingar gætu leitt til sparnaðar bæði í skólakerfinu og samfélaginu í heild og leitt til aukinnar verðmætasköpunar.

„Það þarf bara að byrja á byrjuninni. Við erum alltaf með hugarfarið „þetta reddast“ og við erum rosalega flink sem þjóð að reyna alltaf að finna plástra á blæðandi sár en ekki að reyna að finna orsökina.“

Nánar er rætt við Írisi í sérblaðinu Iðnþing, sem kom út 6. mars. Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild hér.