Viðskiptablaðið fjallaði upphaflega um starfsemi Intuens Segulómunar í nóvember á síðasta ári. Fyrirtækið hafði þá fengið öll tilskyld leyfi, þar á meðal frá landlæknisembættinu. Styr hefur þó staðið um fyrirtækið frá þeim tíma og hefur landlæknir, meðal annars, markvisst reynt að hindra innkomu Intuens á markað fyrir myndgreiningarþjónustu.
Intuens hefur nú kært tafir á málsmeðferð embættisins til heilbrigðisráðuneytisins auk þess sem kvörtun hefur verið send á umboðsmann Alþingis. Stjórnsýslukæran snýr að synjun landlæknis á tilkynningu Intuens um breytingu á rekstri, sem felur í sér skoðanir án tilvísunar. Landlæknir synjaði þeirri tilkynningu fyrr á árinu en ráðuneytið beindi því til embættisins fyrir rúmum tveimur mánuðum að taka málið aftur fyrir, þar sem synjunin var metin ólögmæt.
Í stjórnsýslukærunni kemur fram að Intuens telji að þær tafir sem hafa orðið á málsmeðferðinni feli í sér brot á ákvæðum 9. greinar stjórnsýslulaga, sem kveða á um málshraða. Málið hafi dregist óhóflega miðað við efni og eðli þess sé litið heildstætt á málsmeðferð embættisins en tæpt ár er liðið frá því að tilkynningin var send og rúmt ár frá því að reksturinn var staðfestur.
Kvörtunin tekur á sama þætti málsins og er þess óskað að umboðsmaður taki málið til nánari athugunar. Mál Intuens hafi verið til meðferðar embættisins í á annað ár, án niðurstöðu, en landlæknir dragi málið án þess að fyrir því hafi verið færðar fram réttlætanlegar aðstæður.
Synjunin ólögmæt
Intuens tilkynnti landlækni um starfsemina í byrjun september 2023 og var þar miðað við rannsóknir án tilvísana frá lækni. Vegna afstöðu landlæknis var þeirri tilkynningu þó breytt og miðað við þjónustu með tilvísunum frá lækni. Í desember var send tilkynning um breytingu á rekstri sem fól í sér að hver sem er gæti óskað eftir segulómrannsókn af öllum líkama sínum, svokallaða heilskoðun án tilvísana frá lækni. Embætti landlæknis synjaði þeirri tilkynningu en ráðuneytið fól embættinu að taka málið aftur fyrir, þar sem ekki var fallist á rök þess efnis að öryggi sjúklinga væri ógnað.
Frá þeim tíma sem úrskurðurinn var birtur liðu tveir mánuðir þar til svör bárust frá embætti landlæknis en Intuens hafði þá margoft ítrekað upprunalegt erindi. Í bréfi til Intuens í byrjun nóvember sagði embættið að málið hafi verið tekið til „nýrrar meðferðar með ítarlegri rannsókn” og að óskað hafi verið eftir umsögn ýmissa aðila.
Embætti landlæknis benti Intuens þá á að afgreiða þyrfti fleiri mál og gæta þurfi jafnræðis vegna þeirra fjölmörgu erinda sem embættinu berast. Ljóst er því að málsmeðferðartíminn muni lengjast enn frekar en Intuens hefur engar upplýsingar fengið um hvenær áætlað er að ljúka málinu.
„Umbjóðandi okkar hefur í á annað ár reynt að fá niðurstöðu í málið og fá synjun landlæknis snúið. Nú þegar skýr niðurstaða liggur fyrir í úrskurði heilbrigðisráðuneytisins dregur landlæknir málið enn á ný án þess að fyrir því hafi verið færðar fram réttlætanlegar ástæður þegar atvik eru metin heildstætt og þegar litið er til þeirra hagsmuna sem eru undirliggjandi,“ segir í kærunni.
Nánar er fjallað um mál Intuens í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.