Forsvarsmenn lífeyrissjóða, sem eru meðal stærstu hluthafa Skeljungs, kannast ekki við að hafa veitt stuðningsyfirlýsingu við framtíðaráform Strengs með Skeljung, við það að hafna yfirtökutilboði Strengs í Skeljung. Verðið sem Strengur bauð hafi einfaldlega verið of lágt.
Þegar niðurstaða yfirtökutilboðsins var kynnt á þriðjudag var haft eftir Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, stjórnarformanni Skeljungs og Strengs, að með því að hafna tilboðinu mætti líta svo á að aðrir hluthafar væru að sýna traust og trú á þeirri vegferð sem Strengur hefði kynnt varðandi Skeljung. 2,6% hluthafa tóku yfirtökutilboðinu en eftir það átti Strengur 41,6% hlut í Skeljungi. Síðan þá hefur Strengur bætt við sig hlutum í Skeljungi og á ríflega 50% hlut.
„Sérkennileg“ túlkun
Forsvarsmenn Strengs hafa boðað talsverðar breytingar á Skeljungi – selja eignir og greiða hluthöfum út í formi arðs eða kaupa á eigin bréfum auk þess sem þeir vilja afskrá félagið úr Kauphöll Íslands. Þannig muni efnahagsreikningur Skeljungs minnka töluvert á næstu þremur árum nái áform þeirra fram að ganga. Á eftir Streng í hluthafahópnum koma sjö lífeyrissjóðir á listanum yfir stærstu hluthafana sem átti ríflega 40% hlut í Skeljungi á hluthafalistanum sem birtur var um áramótin.
„Ástæðan fyrir því að við höfnuðum tilboðinu er að þetta er allt of lágt verð. Við teljum að fyrirtækið sé mun verðmætara. Við erum ekki að gefa neina yfirlýsingu um að við séum sammála öllu því sem Jón Ásgeir vill gera,“ segir Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs.
Gildi er næststærsti hluthafi Skeljungs með ríflega 10% hlut. „Það er mjög sérkennilegt að senda inn yfirtökutilboð á verði sem flestir eru sammála um að sé allt of lágt og túlka niðurstöðuna svo þannig að þetta sé stuðningsyfirlýsing við stefnu þeirra.“
Frá því að yfirtökuskylda Strengs í Skeljungi myndaðist í byrjun nóvember hafa bréf Skeljungs hækkað þó nokkuð. Yfirtökutilboðinu sem miðaðist við 8,315 krónur á hlut en Strengur hefur keypti bréf í vikunni fyrir allt að 10,5 krónur á hlut. Í nýlegu verðmati Jakobsson Capital á Skeljungi var félagið metið á 10,4 krónur á hlut.
Árni segir Gildi vera að skoða næstu skref. Þá bendir hann á hlutverk stjórnar félagsins. „Það eru fleiri í stjórn en fulltrúar þeirra. Það er spurning hvernig stjórnin lítur á framhaldið,“ segir Árni.
Verður af afskráningu?
Lífeyrissjóðirnir hafa lagst gegn hugmyndum Strengs um að afskrá félagið. Árið 2019 samþykktu 81% hluthafa Heimavalla að afskrá félagið en Kauphöllin hafnaði beiðninni þar sem stuðningurinn við afskráningu þótti ekki nógu afgerandi. Félagið var afskráð á síðasta ári eftir að norska félagið Fredensborg eignaðist félagið nærri því að fulllu.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .