Gyða ehf., félag í jafnri eigu Kjartans Ólafssonar og Halldóru Kristjánsdóttur, nýtti í dag sölurétt sem felur í sér að félagið selji 450 þúsund hluti, eða um 1,45% eignarhlut, í Icelandic Salmon, móðurfélagi Arnarlax, til norska fiskeldisfyrirtækisins SalMar. Gengið í viðskiptunum var 187 norskar krónur á hlut sem er 17% yfir núverandi 160 norskra króna markaðsgengi Icelandic Salmon.
Söluverðið nemur 84,15 milljónum norskra króna eða sem nemur 1.067 milljónum íslenskra króna. Greint er frá viðskiptunum í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Seldi nærri helming af eignarhlut sínum
Gyða var þriðji stærsti hluthafi Icelandic Salmon með 3,23% hlut í lok síðasta árs. Samkvæmt síðasta ársreikningi Gyðu ehf. átti félagið 1.000.000 hluti í Icelandic Salmon sem voru bókfærðir á 2.162 milljónir íslenskra króna.
Gyða var með erlent lán, í tengslum við fjárfestingar félagsins í hlutabréfum Icelandic Salmon, að fjárhæð 492 milljónum íslenskra króna. Lánið ásamt áföllnum vöxtum er til greiðslu eigi síðar en 31. desember 2025. Í ársreikningnum kemur fram að eignarhlutur félagsins í Icelandic Salmon hafi verið settur að veði.
Gera má því ráð fyrir að eftir viðskiptin í dag eigi Gyða nú 550 þúsund hluti í Icelandic Salmon sem eru um 88 milljónir norskra króna að markaðsvirði eða sem nemur 1,1 milljarði íslenskra króna.
Sal Mar meirihlutaeigandi
Norska fiskeldisfyrirtækið SalMar er meirihlutaeigandi Icelandic Salmon. SalMar átti fyrir viðskiptin í dag 51,02% hlut í Icelandic Salmon. Ætla má að eignarhlutur SalMar í Icelandic Salmon sé nú um 52,47%.
Viðskiptablaðið fjallaði fyrr í dag um árshlutauppgjör sem Icelandic Salmon birti í morgun.