Nordic Secondary Fund hefur keypt almenn bréf af nokkrum af elstu hluthöfum DTE fyrir um 2,4 milljónir dala, sem samsvarar rúmlega 335 milljónum króna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá NSF en sjóðurinn er eina fjárfestingafélagið á Norðurlöndunum sem sérhæfir sig í fjárfestingum á útgefnum bréfum óskráðra fyrirtækja, sem hafa lokið Series-A fjármögnun.
„Við erum mjög stolt af því að koma inn sem fjárfestar DTE, en við höfum reynt að komast yfir hlut í fyrirtækinu í yfir tvö ár. Við sjáum gríðarlega möguleika í DTE og við trúum því að viðskiptamódelið sé afar traust. Miðað við fjármögnunina sem þau luku við síðasta vor með fjárfestum á borð við Novelis, Metaplanet og EIC Fund ættu þau að vera orðin vel í stakk búin fyrir komandi tíma,“ segir Peter Sandberg, stofnandi Nordic Secondary Fund.
„Það er einstaklega ánægjulegt að geta gert nokkrum af okkar elstu hluthöfum kleift að hagnast á því að hafa stutt DTE alveg frá upphafi, á sama tíma og við bjóðum Nordic Secondary Fund velkomin í hluthafahópinn,“ segir Karl Ágúst Matthíasson, framkvæmdastjóri DTE.