Styrkás, þjónustufyrirtæki í meirihlutaeigu Skel fjárfestingarfélags, undirritaði samkomulag í byrjun árs undir kaupsamning um kaup á öllu hlutafé í sex dótturfélögum Máttarstólpa ehf.

Heildarviði seldu félaganna var um 3,55 milljarðar króna, en að frádregnum nettó vaxtaberandi skuldum og stöðu nettó veltufjármuna var endanlegt kaupverð tæplega þrír milljarðar króna. Félögin sex eru Stólpi Gámar, Stólpi Smiðja, Klettaskjól, Stólpi ehf., Tjónaþjónustan ehf., og Alkul ehf.

Ásmundur Tryggvason, forstjóri Styrkáss, segir mörg tækifæri felast í kaupunum, ekki síst í samlegðaráhrifum með breiðara vöru- og þjónustuframboði.

„Rekstur Stólpa gengur út á að veita afburðaþjónustu sem rýmar við DNA samstæðunnar. Við höfum markað okkur stefnu að byggja upp leigustarfsemi og Stólpi Gámar eru þar með mjög sterka stöðu í gáma- og húseiningaleigu, sem er góður grunnur að uppbyggingu starfseminnar. Við sjáum tækifæri í húseiningamarkaðnum sem er að vaxa hratt og bjóðum þar upp á einingar á mjög breiðum grundvelli sem henta bæði til þess að koma upp aðstöðu til lengri og skemmri tíma.

Þegar fram líða stundir sjáum við tækifæri í að víkka vöru- og þjónustuframboð Stólpa, enda er mikil skörun í viðskiptavinum á milli félagsins og annarra félaga innan Styrkáss. Síðan má nefna annan vaxtabrodd innan Stólpa, þó hann sé smærri i sniðum. Það er öflug smiðja sem er leiðandi í gámaviðgerðum. Þar að auki er kæli- og frystiþjónusta sem var efld nýlega, sem gerir okkur kleift að þjónusta bæði frystigáma og kælikerfi,“ bætir Ásmundur við.