Fyrirhugaðri skráningu íslenska nýsköpunarfyrirtækisins Kerecis á markað hefur verið slegið á frest. „Markaðir fyrir hávaxtafyrirtæki eins og okkur hefur lækkað mjög mikið – jafnvel um 50%. Það er ekki skynsamlegt að skrá félagið þegar markaðir eru á niðurleið. Okkur liggur ekkert á að skrá okkur, erum ágætlega fjármögnuð með rekstrarfé til tólf til átján mánaða og þar að auki er reksturinn okkar kominn á þann stað að fjármögnun með lánsfjármagni er orðin möguleg,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson, forstjóri og stofnandi Kerecis.
„Þegar markaðsaðstæður breytast og markaðir taka við sér á ný munum við endurskoða afstöðu okkar til skráningar. Þá gætum við orðið eitt af fyrstu fyrirtækjunum til að skrá okkur.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í nóvember átti Kerecis í viðræðum um að fara á markað í Bandaríkjunum með kaupum á skráðu bandarísku félagi í heilbrigðisgeiranum. Auk þess hafði verið horft til sænska hlutabréfamarkaðarins.
Nánar er rætt við Guðmund um framtíðaráform Kerecis í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .