Félagið Í Toppformi ehf., sem heldur utan um fasteignir World Class á Íslandi, keypti bygginguna Sjáland að Ránargrund 4 við Vífilsstaðaveg í Garðabæ fyrir 710 milljónir króna samkvæmt kaupsamningi sem þinglýstur var 29. desember sl. Þar stendur til að opna fyrstu World Class líkamsræktarstöð Garðabæjar.

Seljandi er Arnarnesvogur ehf., sem er í aðaleigu hjónanna Páls Þórs Magnússonar og Gabríelu Kristjánsdóttur auk Símonar Sigurðar Sigurpálssonar, fyrrverandi kaupmanns í Þinni verslun í Breiðholti og Kjörbúð Hraunbæjar.

Hyggjast reisa viðbyggingu

Í viðtali við Morgunblaðið í byrjun árs sagði Björn Kr. Leifsson, framkvæmdastjóri og eigandi World Class, að verkefnið allt muni kosta á bilinu 1,2 til 1,3 milljarða króna og að framkvæmdum geti verið lokið eftir tvö ár.

Birt stærð fasteignarinnar er 676,7 fermetrar. World Class hyggst einnig reisa viðbyggingu með 450 fermetra gólfflöt að gefnu leyfi frá bæjarfélaginu.‏ Þar stendur til að koma m.a. fyrir infrared hóptímasal, búningsklefa í kjallara og tækjasal á jarðhæðinni.

Í húsinu var um árabil veitingastaðurinn Sjáland og veislusalur. Björn sagði að áfram standi til að reka veitingastað í húsinu og ætti fyrirtækið í viðræðum við veitingamenn til að taka við rekstri veitingahússins.

„Hugsa ég að veitingastarfsemin verði nokkurn veginn í óbreyttri mynd, en auk viðbyggingar austanmegin langar okkur að reisa 102 fm viðbyggingu til suðurs til að stækka veitingastaðinn, og geta þá breytt núverandi veislusal hússins í líkamsræktarsal,“ hafði Morgunblaðið eftir Birni.

Björn Leifsson, framkvæmdastjóri og eigandi World Class.
© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)