Félag atvinnurekenda (FA) gagnrýnir harðlega fyrirhugaða 3,5% hækkun á áfengisgjald í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. FA furðir sig á að horfið sé frá þeirri leið að miða hækkun krónutöluskatta við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans.

„Félag atvinnurekenda andmælir enn frekari hækkunum á hæstu áfengissköttum í hinum vestræna heimi.“

Á heimasíðu FA er áætlað hvaða hækkun áfengisgjaldsins muni leiða til mikillar verðhækkunar á algengum áfengisteundum. Flaska af vinsælu gini og kassi af léttvíni eru talin líkleg til að hækka í verði um 200 krónur. Þá muni kippa af vinsælum bjór að líkindum hækka um 60 krónur og flaska af algengu léttvíni um 50 krónur.

FA segir að ríkið taki til sín mikinn meirihluta af verði áfengis í öllum helstu áfengisteundum. Í umsögninni er birt tafla þar sem sundurliðað er hvernig útsöluverð áfengis skiptist á milli ríkisins, sem innheimtir áfengisgjald, virðisaukaskatt, skilagjald og stýrir álagningu í Vínbúðum ÁTVR, og svo framleiðanda eða innflytjanda.

„Þessi herfilega skattpíning neytenda þessarar einu neyzluvöru bitnar ekki einvörðungu á neytendum, heldur einnig og ekki síður fyrirtækjum í ferðaþjónustu, veitingarekstri og áfengisframleiðslu,“ segir í umsögn FA.

„Framleiðsla áfengis er hraðvaxandi atvinnugrein á Íslandi og í sterkum tengslum við ferðaþjónustuna. Langmest er framleitt af bjór, þar sem alls konar nýsköpun stórra og smárra fyrirtækja hefur búið til störf um allt land.

FA leggur til að gerð verði sú breyting á frumvarpinu að hætt verði við hækkun áfengisskatts, að minnsta kosti á bjór þannig að skattlagning á léttvíni og bjór jafnist. Félagið segir að allan rökstuðning skorti fyrir því fyrirkomulagi að áfengisskattur á hvern sentilítra vínanda í bjór sé 10% hærri en áfengisskattur á sambærilega einingu í léttvíni.