Það þurfti ekki meira en eitt tíst á samfélagsmiðlinum X til þess að öll helstu jarmbréf (e. meme stock) í Bandaríkjunum færu á flug á ný, samkvæmt The Wall Street Journal.
Keith Gill, sem gengur undir nafninu „Roaring Kitty“ á Youtube og skrifar undir nafninu „DeepF—ingValue” á Reddit, hefur ekkert látið í sér heyra frá því hann átti stóran þátt í að þrýsta hlutabréfaverði GameStop í stjarnfræðilegar hæðir árið 2021.
Allir samfélagsmiðlar Gill hafa legið í dvala síðastliðin þrjú ár er hann birti óvænt ljósmynd á sunnudagskvöldið.
Á myndinni var ekki að finna auðkenni neins hlutabréfs né hvatti Gill fylgjendur sína til að kaupa eða selja. Það skipti þó engu máli.
— Roaring Kitty (@TheRoaringKitty) May 13, 2024
AMC og Gamestop á flug
Á mánudaginn rauk gengi GameStop upp um 74%. Hlutabréfaverð tölvuleikjaverslunarinnar hélt áfram að hækka í gær og fór gengið upp um 60%.
Samkvæmt The Wall Street Journal hefur markaðsvirði GameStop aukist um 9,6 milljarða Bandaríkjadali síðastliðna tvo daga sem samsvarar um 1330 milljörðum króna.

© Skjáskot (Skjáskot)
Önnur jarmbréf ruku einnig upp og fór hlutabréfaverð kvikmyndahúsakeðjunnar AMC upp um 135% á sama tímabili. Plug Power fór upp um 34%, Blackberry um 20% og Koss um 92%.