Þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára gömul á knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir nærri átta ára feril að baki í atvinnumennsku erlendis, auk þess að hafa spilað 108 A-landsleiki fyrir Íslands hönd.
Í tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar Áramót, sem kemur út í fyrramálið, er ítarlegt viðtal við Glódísi.
Eftir að hafa leikið með uppeldisfélaginu HK og Stjörnunni hér á landi hélt hún út í atvinnumennsku til Svíþjóðar í byrjun árs 2015 og gekk til liðs við Eskilstuna í efstu deild þar í landi. Þar lék hún í tvö ár áður en hún gekk í raðir Rosengard, sem er sigursælasta liðið í sögu efstu deildar í Svíþjóð. Eftir að hafa unnið allt sem hægt er að vinna í Svíþjóð gekk Glódís í byrjun síðasta árs svo í raðir stórliðs Bayern München, frá samnefndri borg í Þýskalandi. Hún segir lífið í borginni gott en viðurkennir þó að hún kunni betur við sig í minni borgum.
„Ég kunni mjög vel við mig í Svíþjóð þar sem hægt var að fara nánast allar sínar ferðir hjólandi og sakna þess smá að geta það ekki lengur. Mér finnst pínu þreytandi að þurfa að keyra eða nota almenningssamgöngur hvert sem ég þarf að fara. München er þrátt fyrir þetta mjög falleg borg sem hefur fjölmarga kosti. Núna í kringum jólin er til dæmis komið upp mörgum ótrúlega skemmtilegum jólamörkuðum. Í nágrenni við borgina er svo falleg náttúra með geggjuðum fjöllum og vötnum. Mér finnst mjög gaman að gera mér ferð á þessar slóðir.“
Þegar litið sé til lífsins innan vallar er aðstaðan og allt í kringum liðið hjá Bayern München í hæsta gæðaflokki.
Nánar er rætt við Glódísi í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar, sem kemur út morgun, fimmtudaginn 29. desember. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og viðtalið í heild sinni hér.