„Þetta eru ofboðslega dýrir sjúkdómar, ekki síst fyrir atvinnulífið þótt auðvitað hugsum við sem samfélag fyrst og síðast um að fólki líði vel,“ segir Þórarinn Ævarsson athafnamaður um áhrif geðrænna vandamála á borð við þunglyndi á samfélagið.

Hann vill að stjórnvöld veiti leyfi fyrir klínískum meðferðum með hugbreytandi efninu Psilocybin, sem er virka efnið í ofskynjunarsveppum. Með því megi spara gríðarlegar fjárhæðir samhliða bættri líðan fólks.

Kostnað samfélagsins segir hann meðal annars felast í mælanlegum þáttum eins og töpuðum vinnudögum, en einnig geti verið um töluverð áhrif á afkastagetu að ræða sem erfiðara sé að festa fingur á. „Sumir kannski mæta alltaf til vinnu en eru svo annars hugar og illa á sig komnir sem skilar sér í skertum afköstum.“

Í verstu tilfellunum geti afleiðingarnar þó verið mun verri. „Helsti orsakavaldur snemmbúinnar örorku í dag er ekki af líkamlegum toga heldur er það kulnun af völdum þunglyndis eða annarra andlegra erfiðleika.“

Nánar er rætt við Þórarin í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út fimmtudaginn 5. janúar.