Í gær fór fram aðalmeðferð í skaðabótamáli þrotabús Wow Air gegn Títan Fjárfestingarfélagi, eiganda þess og fyrrverandi eiganda Wow Air, Skúla Mogensen, og fyrrverandi stjórnarmönnum Wow Air, þeim Liv Bergþórsdóttur, Helgu Hlín Hákonardóttur, Davíð Mássyni og Ben Baldanza. Lögmennirnir Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson eru skiptastjórar þrotabús Wow Air en auk fyrrnefndra var erlendum tryggingarfélögum einnig stefnt vegna stjórnendatryggingar Wow Air. Krefst þrotabúið þess að hin stefndu greiði samtals um 3 milljónir dala í skaðabætur.

Í málinu krefst þrotabú Wow Air skaðabóta vegna fjögurra sölu- og kaupréttarsamninga tengdum Airbus flugvélunum TF-MOM, TF-DAD, TF-SON og TF-KID sem voru í rekstri Wow Air. Samningarnir tengjast leigusamningum sem gerðir voru við flugvélaleigusalana Moonsun Leasing Ltd. og Hawk Bay á árunum 2015 og 2016. Í samningunum gekkst Títan, móðurfélag Wow Air, í ábyrgð fyrir leigugreiðslur Wow Air. Auk þess samdi Títan við félögin um kauprétti á Airbus vélunum fjórum. Síðar var svo gerður kaup- og söluréttarsamningur milli Wow Air og Títan um kaup vélanna. Skiptastjórar vilja meina að umræddir samningar hafi valdið Wow Air tjóni en varnaraðilar segja samningana þvert á móti hafa aflað Wow Air töluverðra fjármuna.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.