Samskip lagði fram tæplega 250 blaðsíðna kæru til áfrýjunarnefndar Samkeppnismála í síðustu viku þar sem skipafélagið krefst þess að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að félagið hafi átt í samráði við Eimskip á árunum eftir hrun verði felld úr gildi.
Í kæru Samskipa segir að ef áfrýjunarnefnd kemst að þeirri niðurstöðu, gegn væntingum skipafélagsins, að félagið hafi ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni samkvæmt 19. gr. stjórnsýslulaga beri að lækka sektarfjárhæðina verulega enda sé hún án „fordæma og úr öllu hófi.“
„[Samskip] hefur rökstutt að kenning um víðtækt samráð er alröng og að skýrslugjöf þriggja af fjórum starfsmanna áfrýjanda falli einfaldlega ekki undir ákvæðið. Því til viðbótar var munnleg upplýsingagjöf ekki röng, villandi eða ófullnægjandi,“ segir í kæru Samskipa.
„Þá voru upplýsingabeiðnir Samkeppniseftirlitsins svo almennar og víðtækar, að þrátt fyrir að áfrýjandi hafi lagt gríðarlega áherslu á að vanda svör og samantekt upplýsinga, var ómögulegt að verða við kröfum stofnunarinnar að öllu leyti. Beiðnirnar gengu langt út fyrir allt meðalhóf og voru óskýrar, ekki síst í ljósi þess að sakarefni málsins náði til allrar starfsemi áfrýjanda. Kröfur um samantekt og flokkun gagna samræmdust ekki 19. gr. og lögðu óhóflega íþyngjandi byrðar á áfrýjanda, einkum þar sem Samkeppniseftirlitið bjó þegar yfir öllum gögnum áfrýjanda og fullkomnum búnaði til að leita tiltekinna gagna,“ segir þar enn fremur.
Samskip segir eftirlitið hafa farið langt yfir sínar rannsóknarheimildir en í beiðnunum var jafnframt krafist upplýsinga úr persónulegum pósthólfum og samfélagsmiðlum, bæði núverandi og fyrrverandi starfsmanna, án viðeigandi lagaheimilda.
Þá krafðist Samkeppniseftirlitið þess að starfsmenn skrifuðu undir skjal með skriflegri yfirlýsingu en eftir því sem Viðskiptablaðið kemst næst er slíkt ekki venjan í rannsóknum Samkeppniseftirlitsins.
Í kærunni segir að með beiðnunum um aðgang að persónulegum samskiptum starfsmanna fylgdi „kröfur um skriflegar yfirlýsingar og staðfestingar að viðlagðri refsiábyrgð starfsmanna var þess í raun krafist að starfsmenn felldu á sig sök, ef slík sök væri til staðar. Beiðnirnar brutu þannig gegn stjórnarskrárvörðum rétti einstaklinga til að fella ekki á sig sök.“
Í ljósi þessa telja Samskip að það séu engar forsendur fyrir svo hárri sekt. Skipafélagið segir líka sérstakt að „það liggja engar upplýsingar fyrir um fjárhæð sektar Eimskips vegna brota gegn 19. gr. en hún er ekki tilgreind sérstaklega, heldur sögð hluti af heildarfjárhæðinni.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild sinni hér.