Verð brent hráolíu, sem er hráefni sem flest eldsneyti er unnið úr, hefur hækkað um 18% á árinu og stendur tunnan núna 93,2 dölum.
Á sama tímabili hefur bensínverð við dæluna á Íslandi haldist frekar stöðugt en verðið á bensínlítra hjá Orkunni var 323 krónur í byrjun árs og stendur nú í 322.
Bensínverð lækkaði hægt og rólega í vor og náði lágmarki yfir sumarið þar sem það hélst tiltölulega stöðugt hérlendis þrátt fyrir mikla framleiðsluskerðingu hjá Sádi-Arabíu, Rússlandi og öðrum OPEC+ ríkjum.
„Það er líklegt að verð muni hækka eitthvað. Enn sem komið er hefur það verið hóflegt eftir að verðið fór að hækka erlendis um mitt ár. Við höfum ekki séð mikið merki um það á eldsneytisverðinu en það kemur alltaf því hreyfingin er svo stór,“ segir Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka en gengi íslensku krónunnar er ein af ástæðum þess að hækkanirnar komu ekki fram í sumar hérlendis.
„Við höfum fengið á móti að dollarinn hefur lækkað á móti krónu það sem af er ári nokkuð meira en til dæmis evran. Það hefur væntanlega vegið á móti verðinu í dollurum svona fram eftir sumri en það hefur vissulega snúist aðeins við og hættir þá að veita eitthvað svigrúm til að halda aftur af hækkunum.“
Íslenska krónan hefur styrkt sig um 4% gagnvart Bandaríkjadal á síðustu sex mánuðum en veikst um 3,2% síðastliðinn mánuð. Búast má því við því ef Sádarnir halda áfram að skerða framleiðslu að verðið við dæluna muni hækka í haust.