Verð brent hrá­olíu, sem er hrá­efni sem flest elds­neyti er unnið úr, hefur hækkað um 18% á árinu og stendur tunnan núna 93,2 dölum.

Á sama tíma­bili hefur bensín­verð við dæluna á Ís­landi haldist frekar stöðugt en verðið á bensín­lítra hjá Orkunni var 323 krónur í byrjun árs og stendur nú í 322.

Bensín­verð lækkaði hægt og ró­lega í vor og náði lág­marki yfir sumarið þar sem það hélst til­tölu­lega stöðugt hér­lendis þrátt fyrir mikla fram­leiðslu­skerðingu hjá Sádi-Arabíu, Rúss­landi og öðrum OPEC+ ríkjum.

„Það er lík­legt að verð muni hækka eitt­hvað. Enn sem komið er hefur það verið hóf­legt eftir að verðið fór að hækka er­lendis um mitt ár. Við höfum ekki séð mikið merki um það á elds­neytis­verðinu en það kemur alltaf því hreyfingin er svo stór,“ segir Jón Bjarki Bents­son aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka en gengi ís­lensku krónunnar er ein af á­stæðum þess að hækkanirnar komu ekki fram í sumar hér­lendis.

„Við höfum fengið á móti að dollarinn hefur lækkað á móti krónu það sem af er ári nokkuð meira en til dæmis evran. Það hefur væntan­lega vegið á móti verðinu í dollurum svona fram eftir sumri en það hefur vissu­lega snúist að­eins við og hættir þá að veita eitt­hvað svig­rúm til að halda aftur af hækkunum.“

Ís­lenska krónan hefur styrkt sig um 4% gagn­vart Banda­ríkja­dal á síðustu sex mánuðum en veikst um 3,2% síðast­liðinn mánuð. Búast má því við því ef Sádarnir halda á­fram að skerða fram­leiðslu að verðið við dæluna muni hækka í haust.