Síðustu helgi varð Höskuldur Ólafsson, bankastjóri Arion banka, sjötti forstjóri félags á Aðallista Kauphallar sem ákveður að láta af störfum frá því síðasta sumar. Þetta er mikil endurnýjun á stuttum tíma og fer nær að þriðjungur allra félaga á aðallistanum hafi skipt um kallinn í brúnni. Jafn mörg og tíð forstjóraskipti hafa ekki átt sér stað í félögum Kauphallarinnar síðastliðinn áratug eða frá Hruninu árið 2008.

Hver afsögn er sérstök og tekur mið af sérstökum aðstæðum í hverju tilfelli. Þar að auki kunna opinberar skýringar ekki endilega að vera þær sömu og raunverulega réðu úrslitum á bak við tjöldin. Þrátt fyrir þetta má engu að síður finna ákveðnar samsvaranir í sumum afsögnunum og sömuleiðis eru aðstæðurnar í öðrum um margt svipaðar. Fyrir það fyrsta má segja að skriðan fari af stað akkúrat  þegar hagsveiflan tekur að snúast.

Þeir sem gagnrýna launabónusa sem byggja á þriggja mánaða árangursmati benda gjarnan á að árangur sé ekki hægt að meta nema í ljósi hagsveiflunnar í heild. Frá þeim sjónarhóli má segja að raunverulegur prófsteinn á árangur forstjóranna hafi hafist síðastliðið sumar þegar hægja fór á fjölgun ferðamanna, fasteignamarkaður tók að kólna og gengi krónunnar að síga.

Afsagnir og brostnar væntingar

Brotthvarf Vilhjálms Vilhjálmssonar úr stóli forstjóra HB Granda síðasta sumar sker sig frá hinum sem komu á eftir að því leyti að forstjóraskiptin voru hluti af breyttu eignarhaldi eða yfirtöku eins og sumir vildu túlka það. Vissulega var óánægja með afkomu HB Granda árin 2017 og 2018 og því hægt að tengja yfirtökuna við það að árangur félagsins var lakari en væntingar stóðu til um.

Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Icelandair, dróg enga dul á ástæðuna fyrir afsögn sinni þegar hann tilkynnti ákvörðunina í lok síðasta sumars. Mistök við breytingar á leiðakerfi og sölu- og markaðsstarfi voru Icelandair dýrkeypt á síðasta ári. „Það er ábyrgðarhluti að hafa ekki fylgt breytingunum eftir með fullnægjandi hætti og brugðist fyrr við. Þá ábyrgð tel ég rétt að axla og læt því af störfum sem forstjóri félagsins,“ sagði Björgólfur í tilkynningu um afsögn sína.

Stefán Sigurðson, fráfarandi forstjóri Sýnar, nefndi einnig ábyrgð sína sem forstjóra í því að afkoma félagsins hefði verið undir væntingum þegar hann tilkynnti afsögn sína í vetur. Eigin ábyrgð kom ekki til tals þegar Gylfi Sigfússon, fyrrverandi forstjóri Eimskips, og Guðbrandur Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Heimavalla, tilkynntu afsagnir sínar. Engu að síður voru þær teknar í skugga afkomu og áætlana sem voru undir væntingum hluthafa.

Afsögn Höskuldar Ólafssonar var tilkynnt stuttu eftir að Wow air varð gjaldþrota en Arion banki var stór lánveitandi flugfélagsins og ljóst að þau útlán voru töpuð. Wow var þriðja stóra gjaldþrotið á stuttum tíma sem Arion banki var viðriðinn og mikið var fjallað um í fjölmiðlum, en bankinn tapaði einnig miklu þegar United Silicon í Helguvík og flugfélagið Primera air voru tekin til gjaldþrotaskipta.

Allt hlutafé Wow var í höndum fjárfestingafélags í eigu Skúla Mogensen, Títans, en framkvæmdastjóri þess er Ólafur Höskuldsson, sem jafnframt er sonur Höskuldar. Í viðtali hafnaði Höskuldur því að nokkurt þessara atriða hafi ráðið úrslitum í ákvörðuninni um að stiga til hliðar. Samanlagt hafa þau þó vafalaust vegið þungt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .