Íslenska heilbrigðistæknifyrirtækið Kara Connect hefur skapað vettvang sem stuðlar að bættri líðan einstaklinga í starfsumhverfi fyrirtækja með nýstárlegum lausnum. Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins er í ítarlegu viðtali í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsrar verslunar.
Ein mikilvægasta áskorunin sem fyrirtæki standa frammi fyrir í dag er kulnun og veikindi, bæði til skemmri og lengri tíma. Skammtímaveikindi hafa aukist verulega eftir COVID-19 og fyrirtæki glíma nú við óvissu um hvernig best sé að takast á við þau. „Það er greinilega þörf fyrir aukinn stuðning við stjórnendur til að takast á við þessa áskorun,“ segir Þorbjörg Helga. Hún bendir á að óljóst sé hvort aukning veikinda sé vegna langvarandi áhrifa af COVID-19 eða breyttrar hegðunar, þar sem fólk er síður tilbúið að mæta í vinnu með einkenni sem áður voru talin lítilvæg.
Langtímaveikindi eru hins vegar stórt vandamál, bæði fyrir fyrirtækin sjálf og samfélagið í heild. „Þau eru gríðarlega dýr og mér finnst skrítið að ferlið sé ekki komið fyrr í gang til að styðja við einstaklingana,“ útskýrir Þorbjörg Helga. „Á opinberum vinnustöðum getur fólk verið í veikindaleyfi í hálft til eitt ár án þess að stuðningur eða endurhæfing hefjist.“ Hún leggur til að slíkur stuðningur verði færður framar í ferlinu til að draga úr kostnaði og stytta fjarverutíma.