Kvika banki mun hefja söluferli á dótturfélagi sínu TM tryggingum í dag, að því er kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallarinnar. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku hefur verið falin umsjón með söluferlinu og hefur BBA//Fjeldco verið ráðinn lögfræðilegur ráðgjafi í ferlinu.

„Ferlið verður með þeim hætti að Kvika hyggst selja allt útistandandi hlutafé í TM eða selja hlut í félaginu til kjölfestufjárfesta sem kann að leiða til skráningar.“

Kvika tilkynnti í byrjun október um áform um að selja eða skrá TM í Kauphöllina. Bankinn sagði að ákvörðunin væri hluti af framtíðarsýn sinni þar sem lögð væri áhersla á að einfalda rekstur samstæðunnar og styrkja hefðbundna bankastarfsemi.

Jafnframt sagði Ármann Þorvaldsson, forstjóri Kviku, að takmörkuð tekjusamlegð hafi verið af tryggingastarfsemi og bankastarfsemi samstæðunnar.

„Því er það mat stjórnenda að það sé hagkvæmara bæði fyrir Kviku og TM að skilja TM frá samstæðunni og styrkja verulega bankastarfsemi okkar í kjölfarið,“ sagði Ármann.