RVK Studios, framleiðslufyrirtæki Baltasars Kormáks, og móðurfélagið Sögn ehf. högnuðust samanlagt um 395 milljónir króna á síðasta ári sem er fjórfalt meira en árið 2019. Þrátt fyrir heimsfaraldurinn voru umsvifin í fyrra þau mestu hjá RVK Studios til þessa. Alls námu tekjur RVK Studios og dótturfélaga vel yfir þremur milljörðum króna á síðasta ári.
„Mig langaði að breyta þessum bransa á Íslandi og það er vonandi farið að gerast," segir Baltasar Kormákur, sem er vongóður um að umsvif íslenskrar kvikmyndagerðar geti enn margfaldast miðað við það sem nú er.
Stærstu verkefni RVK Studios á síðasta ári voru Netflix þáttaröðin Katla, þriðja þáttaröð Ófærðar og Netflixmyndin Against the Ice en sú síðastnefnda er með Game of Thronesstjörnunni Nikolaj Coster-Waldau í aðalhlutverki.
„Fyrirtækið er í heildina að verða sterkara með árunum og með jafnari tekjur. Það lítur rosalega vel út og mjög spennandi tímar fram undan. En kvikmyndabransinn getur verið valtur og gengið og krónan gert okkur erfitt fyrir," segir Baltasar sem staddur er erlendis við eftirvinnslu á Hollywoodmyndinni Beast með stórstjörnunni Idris Elba í aðalhlutverki.
Sigurður Ingi standi við sitt
Baltasar vonast til að Sigurður Ingi Jóhannesson, formaður Framsóknarflokksins, standi við stefnumál flokksins í nýafstöðnum alþingiskosningum og komi því í kring að endurgreiðslur ríkisins vegna kvikmyndaframleiðslu verði hækkaðar úr 25% í 35%.
„Við erum varla samkeppnishæf eins og er. Það er 35% endurgreiðsla á Írlandi og Spáni þangað sem við höfum verið að missa verkefni. Eurovisionmyndin var til dæmis að mestu tekin upp á Írlandi en ekki Íslandi," segir hann.
Baltasar telur vel raunhæft að íslenskur kvikmyndageiri geti velt um hundrað milljörðum króna á ári líkt og Sigurður Ingi nefndi fyrir kosningarnar. „Það eru feikileg tækifæri í kvikmyndagerð á Íslandi. Við höfum oft talað fyrir daufum eyrum en mér finnst stjórnmálamenn vera að sjá möguleikana. Þetta getur orðið ein af stoðunum okkar. Tæknin hefur breyst svo mikið að við getum gert allt sem gert er í Bandaríkjunum á Íslandi. Against the Ice, sem við unnum fyrir Netflix, er í rauninni Hollywoodmynd sem er öll gerð á Íslandi," bendir Baltasar á.
„Við erum komin með ansi góðan grunn. Ég er að ferðast um lönd og tala um íslenska undrið. Fólk á ekki orð yfir því hvað er mikið af efni að koma frá Íslandi. Ég held að Íslendingar séu svo dekraðir að þeir sjái þetta ekki. Bara það að við séum á pari við hin Norðurlöndin og jafnvel að gera betur er með ólíkindum miðað við fólksfjölda.
Nánar er rætt við Baltasar Kormák í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir
Tölublöð
, aðrir geta skráð sig í
áskrift hér
.