Lífskjarasamningarnir renna út um næstu mánaðamót. Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að undirbúningur kjaraviðræðna standi yfir.
„Við vonumst til að geta byggt á fordæmi sem fólst í síðustu samningum,“ segir hann. „Verkalýðsfélögin hafa verið að kynna kröfur sínar og við höfum átt fundi með iðnaðarmannafélögunum. Kröfur um verulega styttingu vinnutíma og miklar launahækkanir að auki benda ekki til þess að ásættanleg niðurstaða fyrir alla verði auðfengin.“
Að sögn Halldórs Benjamíns er afar brýnt að gera kjarasamninga sem samrýmast getu fyrirtækjanna og framleiðniaukningu atvinnulífsins. Alls ekki megi hleypa verðbólgunni upp.
„Við viljum læra af reynslunni og forðast slys eins og á á níunda áratug síðustu aldar þegar laun hækkuðu um 1850% en verðbólgan sá um að éta upp allar launahækkanir tímabilsins og gott betur,“ segir Halldór Benjamín og bæti því við að kjaraviðræðurnar snúist um lífskjör fólks og jákvæða þróun samfélagsins.
Frá upphafi árs 2019 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um heil 13%.
Halldor segir að í kjarasamningum sé markmið samningsaðila að auka kaupmátt og það hafi tekist undanfarin ár.
„Þrátt fyrir að kaupmáttur ráðstöfunartekna hafi dregist saman á öðrum ársfjórðungi 2022 hefur kaupmáttur launa aukist um 7% frá gildistöku lífskjarasamningsins á sama tíma og efnahagsumsvif drógust saman um 5% á mann vegna heimsfaraldursins.
Frá upphafi árs 2019 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um heil 13% og frá 2016 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 20%. Á síðustu tíu árum hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist um 39% að meðaltali. Viðræðurnar nú snúast kannski fyrst og fremst um að verja þennan einstaka árangur.“
Ummæli fjármálaráðherra
Þegar Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra var spurður út í kjaramálin í fréttum Stöðvar 2 í lok mars sagði hann: „Það er verið að gera ráð fyrir því að á vinnumarkaði verði samið um breytingar á kjörum, sem leiða til þess að laun hækki svona rétt rúmlega það sem verðbólgan verður.“
Halldór Benjamín segir að á tíma faraldursins hafi laun hækkað mikið. „Ég á ekki von á að launahækkanir nú elti verðbólgutoppinn sem virðist sem betur fer hafa náð hámarki.“
Spurður hvort hann eigi von á erfiðum kjaraviðræðum svara hann: „Allir kjarasamningar eru krefjandi. Það er tekist á um mikla hagsmuni þar sem enginn nær öllu sínu fram. Miklu ræðir að fólk komi fram af hógværð og festu og sé tilbúið að leita jákvæðra lausna.“
Viðtalið má lesa í heild í sérblaðinu Fyrirmyndarfyrirtæki í rekstri, sem fylgdi Viðskiptablaðinu í gær. Blaðið er opið öllum og hægt er að nálgast það hér.