Neytendastofa hefur ákveðið að leggja 100 þúsund króna dagsektir á fyrirtækið Base Capital sem rekur þjónustuna Base Parking því félagið hafi ekki brugðist við ákvörðun stofnunarinnar um að fjarlægja það sem hún kallar villandi markaðsefni með fullyrðingum um ódýrasta daggjaldið og fría „valet“ þjónustu fyrir bílastæðageymslu farþega í Leifsstöð.
Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma var félagið stofnað um þjónustu sem felur í sér að sækja bíla farþega Keflavíkurflugvallar og geyma á þjónustustæðum félagsins við Ásbrú og fara aftur með þá á flugvöllinn þegar farþegar snúa heim á ný.
Kvartaði félagið síðar undan starfsháttum ríkisfyrirtækisins Isavia sem þeir segja að hafi reynt að leggja stein í götu félagsins .
Fengu 250 þúsund króna sekt eftir kvörtun Isavia
Eftir kvörtun frá Isavia yfir markaðssetningu Base Capital ehf. vegna auglýsinga ákvað Neytendastofa í janúar að sekta félagið um 250 þúsund króna og banna þeim að auglýsa ódýrasta bílastæðagjaldið á dag sem og að það væri 58% ódýrara en hjá Isavia.
Auk þess bannaði stofnunin félaginu að auglýsa það sem það kallaði fría valet þjónustu, það er að bíllinn yrði sóttur og keyrður aftur á Keflavíkurflugvöll. Segir stofnunin að Base Capital geti ekki sannað fullyrðingar um að félagið bjóði ávallt „ódýrasta daggjaldið“ og „58% ódýrara daggjald“, í ákvörðun sinni frá 23. janúar.
„Þvert á móti sé lagning bíla, allt upp að fjórum dögum, ódýrari á bílastæði Isavia en á bílastæði Base Capital en þrír dagar á bílastæði Isavia kosti 5.250 kr. á meðan þjónusta Base Capital fyrir sama dagafjölda kosti 6.500 kr.“
Segir stofnunin nú að hvorki hafi borist svar við ákvörðuninni, og að enn sé að finna í markaðsefni fyrirtækisins umræddar fullyrðingar, eftir lokafrest til 11. mars síðastliðinn um að fara að banninu.
Segir því nú í ákvörðun stofnunarinnar sem dagsett er 3. apríl síðastliðin en birt á vef hennar í dag að Base Capital ehf. skuli gera breytingarnar innan 14 daga, það er fyrir lok miðvikudagsins 17. apríl næstkomandi.
„Verði það ekki gert innan tilskilins tíma skal Base Capital greiða í ríkissjóð 100.000 kr. (hundraðþúsundkrónur) á dag þar til farið hefur verið að ákvörðuninni.“