Bandaríska ráðgjafarfyrirtækið Glass Lewis & Co. mælir með því að fjárfestar greiði atkvæði gegn áætlun fjárfestingarbankans Goldman Sachs um að veita bæði forstjóranum David Solomon og stjórnarformanninum John Waldron 80 milljónir dala í bónusgreiðslu.
Ráðgjafafyrirtækið kveðst hafa áhyggjur af „áframhaldandi vangetu Goldman Sachs til að samræma laun við frammistöðu,“ samkvæmt skýrslu sem fyrirtækið sendi frá sér á dögunum.
Goldman Sachs hefur átt í harðri baráttu um að halda Waldron, sem einnig gegnir starfi rekstrarstjóra, innan fyrirtækisins. Hann hefur lengi verið talinn eftirmaður Solomon en hefur einnig verið skotmark ýmissa annarra fyrirtækja sem hafa áhuga á að ráða hann sem æðsta stjórnanda.
Í janúar bauð bankinn honum 80 milljón dala kaupréttarpakka til að halda honum í fimm ár til viðbótar. Hann var einnig skipaður í stjórn fjárfestingarbankans í febrúar.
„Samkeppnin um hæfileikaríkt starfsfólk okkar er hörð,“ sagði fulltrúi Goldman Sachs í yfirlýsingu sem send var út í tilefni þess.