VR og Landssamband íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) krefjast þess að vinnuvika félagsmanna sinna verði stytt niður í fjóra daga, eða sem svarar til 32 klukkustunda á viku. Þá krefjast félögin þess að lágmarksorlof verði lengt í 30 daga, en í dag er lágmarksorlof samkvæmt kjarasamningum félaganna 24 dagar. Þetta kemur fram í kröfugerð félaganna til Samtaka atvinnulífsins fyrir komandi kjaraviðræður í haust, þar sem þess er jafnframt krafist að stjórnvöld komi að kjarasamningum.
Í kröfugerðinni segir að stjórnvöld verði að koma að samningaborðinu „eigi kjarasamningaviðræður að skila þeim ávinningi sem vonir standa til“. VR og LÍV krefjast þess að stjórnvöld afnemi verðtryggingu á neytendalánum, lækki álögur og skatta á launafólk og lækki virðisaukaskatt á nauðsynjavörum.
Uppstokkunar sé þörf á húsnæðismarkaði „og þjóðarsátt um næstu skref“. Krefjast félögin þess að þak verði sett á leigu, ungu fólki auðvelduð fyrstu kaup með auknum stuðningi frá hinu opinbera og að lóðaframboð verði aukið verulega með aðkomu sveitarfélaga. „Framboð húsnæðis, hvort heldur til eignar eða leigu, er í engu samræmi við eftirspurn og fáir sem geta komið sér þaki yfir höfuðið“.
Þá fara félögin fram á að stjórnvöld minnki skerðingar í almannatryggingakerfinu, afnemi tekjutengingar bóta og niðurgreiði sálfræðiaðstoð.
Vinnuvikan verði stytt, án launaskerðingar
VR og LÍV segja vinnutíma á Íslandi einna lengstan af þeim löndum sem við berum okkur saman við. Sjá megi afleiðingarnar í fjölgun launafólks síðustu ár sem sæki þjónustu til sjúkrasjóða stéttarfélaganna. Stytting vinnuvikunnar hafi verið fyrsta skrefið í vegferð að styttri og fjölskylduvænni vinnuviku. Almenn ánægja hafi verið með styttinguna hjá félagsmönnum. Mikilvægt sé að fyrirtæki nýti tækifæri sem skapist „í kjölfar hagræðingar sem sjálfvirknivæðing og tækniframfarir stuðla að til þess að stytta enn frekar vinnuviku starfsfólks“. Er því gerð krafa um að vinnuvikan verði stytt niður í 4 daga, eða alls 32 klukkustundir á viku, án skerðingar á launum.
30 daga orlof og aukinn kaupmáttur
Hvað launaliðinn varðar segja félögin helsta markmiðið „að verja þann árangur sem náðist í síðustu kjarasamningum fyrir þau sem eru með lægstu launin en jafnframt tryggja að allt launafólk fái notið jafnræðis þegar kemur að launahækkunum“. Aukinn kaupmáttur ráðstöfunartekna liggi til grundvallar launakröfum VR og LÍV og „að launafólk geti lifað mannsæmandi lífi á dagvinnulaunum sínum“.
Þá segja VR og LÍV að breytingar á orlofsrétti hjá starfsfólki hins opinbera kalli á endurskoðun á rétti starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Eins og fyrr segir gera félögin því kröfu að allt félagsfólk eigi rétt á 30 daga orlofi. Jafnframt krefjast þau að orlofsréttur verði rýmkaður þannig að orlofsnýtingin sé allt að tvö ár í senn. Ef ekki verði við því komið að nýta orlofið innan þess tíma, verði ónýtt orlof gert upp við starfsfólk áður en nýtt tímabil hefst. Auk þess er gerð sú krafa að starfsólk ávinni sér orlofslaun í lögbundnu fæðingarorlofi.
Nálgast má kröfugerð VR og LÍV hér.