Heilbrigðistæknifyrirtækið Leviosa ehf. hefur lokið fjármögnun upp á 142 milljónir króna. Þátttakendur í fjármögnuninni voru núverandi hluthafar í fyrirtækinu ásamt rúmlega 60 heilbrigðisstarfsfólki, þar sem meirihluti þeirra eru starfandi læknar frá bæði Íslandi og erlendis. Greint er frá fjármögnuninni í tilkynningu.

Leviosa var stofnað árið 2019 og einblínir á að þróa heilbrigðistæknilausnir með það markmið að draga verulega úr skráningatíma og tölvutengdum verkefnum fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Félagið hefur áður fengið 110 milljónir í styrki frá Tækniþróunarsjóð, 20 milljónir frá Fléttunni (HVIN Ráðuneytið), aðra minni styrki og í fyrra fékk félagið 100 milljóna fjármögnun frá engla-fjárfestum.

Samanlagt hefur Leviosa nú fengið yfir 370 milljón króna í fjármögnun. Hjá Leviosa starfa 11 aðilar í dag, 8 á skrifstofu félagsins í Kópavogi og 3 erlendis.

„Að fá þennan stóra hóp lækna og annars heilbrigðisfólks inn sem fjárfesta er einhver besta staðfesting sem við gátum fengið á því að við séum á réttri leið. Kollegar mínir hafa kynnst mörgum sjúkraskrárlausnum í sérnámi erlendis og hafa flestir fengið vonda upplifun af þeim. Þeir veðja núna á Leviosa sem þá lausn sem getur gjörbreytt landslaginu sem hefur allt of lengi verið svelt af upplýsingatækni. Þeir tengja strax við vandamálið - sársaukann að þurfa að glíma við úrelt tölvukerfi þegar biðstofan er full af sjúklingum og vaktin er ekkert nema hlaup til að koma þeim í farveg. Leviosa hefur vakið hjá þeim von með því að bjóða upp á notendavæna lausn sem leiðir til öruggara vinnulags, meiri nákvæmni og ekki síst aukinnar framleiðni í afar dýrum og vandasömum rekstri,“ segir Davíð Björn Þórisson, bráðalæknir, stofnandi og vörustjóri Leviosa.

„Í núverandi fjármögnunarumhverfi erum við gríðarlega ánægð að geta tilkynnt að hafa lokið 142 milljón króna fjármögnun. Það að flestir núverandi hluthafar fylgdu eftir sinni fjárfestingu og að 60 aðilar sem eru starfandi í grasrótinni hafi bæst í hópinn eru skýr skilaboð um að við séum á réttri vegferð,“ segir Matthías Leifsson, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Leviosa.

„Það eru spennandi tækifæri á alþjóðlegum markaði í heilbrigðistækni og við sjáum alls staðar í kringum okkur að hann fer ört vaxandi. Ein stærsta áskorun heilbrigðiskerfisins á heimvísu snýr að manneklu í dag, það vantar fleira heilbrigðisstarfsfólk. Samhliða því þá er það í raun ótrúlegt hvað heilbrigðistækni hefur dregist aftur úr í tækniþróun miðað við aðra geira, t.d. fjártæknilausnir. Dags daglega nýtum við okkur tæknina til að einfalda okkar störf, auka framleiðni, bæta öryggi og nákvæmni. Þegar kemur að heilbrigðistækni þá sjáum við mjög takmarkað hvernig nútímatækni hefur verið innleidd til að einfalda heilbrigðisstarfsfólki störf sín. Þar sjáum við hjá Leviosa mikil tækifæri til að gera betur á þessu sviði og veita heilbrigðisstarfsfólki tækninýjungarnar sem þau eiga skilið. Jákvæð áhrif munu einnig ná til þeirra sem nýta sér heilbrigðisþjónustu í formi styttri biðtíma, betri þjónustu og aukins gagnsæi í þjónustu.

Undanfarið ár hefur Leviosa bætt við sig framúrskarandi starfsfólki og er því mikil sérstaða að skapast í félaginu með þekkingu á heilbrigðistækni. Við erum stolt af þeim árangri sem hefur náðst á skömmum tíma og hlökkum til að fylgja eftir okkar verkefnum á næsta ári. Í samstarfi við nokkrar opinberar heilbrigðisstofnanir og fjölda læknastofa vinnum við að innleiðingu og verður því gaman að fá að flytja frekari fréttir af okkar verkefnum á næsta ári."