Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,8% í 6,3 milljarða veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hagar leiddu hækkanir en hlutabréfverð smásölufyrirtækisins hækkaði um 3,6% í 333 milljóna veltu og stendur nú í 72 krónum á hlut.
Sjá einnig: J.P. Morgan á lista yfir stærstu hluthafa Símans og Haga
Mesta veltan var með hlutabréf Marels eða um 1,3 milljarðar króna. Gengi félagsins hafði hækkað um meira en 5% þegar mest lét í viðskiptum dagsins en við lokun Kauphallarinnar stóð það í 518 krónum á hlut, sem er 2,4% hækkun frá gærdeginum. Marel tilkynnti í dag að norska hlutdeildarfélagið Stranda Prolog, sem Marel á 40% hlut í, hefði sótt um gjaldþrotaskipti.
Mikil velta var með hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni. Gengi Arion banka hækkaði um 2% í 1,2 milljarða veltu og hlutabréf Íslandsbanka hækkuðu um tæplega eitt prósent í 1,1 milljarðs viðskiptum. Auk þess hækkaði gengi Kviku banka um 1,5% í hálfs milljarðs króna veltu.
Þá hækkuðu hlutabréf Icelandair um 2,3% í 209 milljóna viðskiptum. Flugfélagið birti mánaðarlegar flutningatölur fyrir ágústmánuð eftir lokun markaða. Sætanýting Icelandair var 89% í síðasta mánuði og fjöldi farþega var um 87% af fjöldanum í sama mánuði árið 2019.