Í síðasta mánuði lagði þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fram frumvarp um félagafrelsi á vinnumarkaði. Frumvarpinu er ætlað að tryggja stjórnarskrárvarinn rétt launafólks, sem flokkurinn telur að hafi fram til þessa að mörgu leyti verið virtur að vettugi á íslenskum vinnumarkaði.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að félög utan vinnumarkaðarins séu undanþegin gildissviði laganna, en aftur á móti kunni að vera nauðsynlegt að ráðast einnig í lagasetningu á þeim sviðum þar sem félagafrelsið er ekki tryggt, eins og til dæmis hvað varði skylduaðild að lífeyrissjóðum.

Árið 1974 var skylda launafólks til að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar svo fest í lög. Kjarasamningsbundin aðild að lífeyrissjóðum er algeng á íslenskum vinnumarkaði og getur stór hluti launþega því í raun ekki valið um hvaða lífeyrissjóð þeir greiða í.

Sumir hafa ekkert val

Tinna Finnbogadóttir, sérfræðingur á skrifstofu fjármálamarkaða hjá fjármála- og efnahagsráðuneytinu, segir það hafa vakið sérstaka athygli sína þegar hún hóf að kynna sér lífeyriskerfið hversu takmarkað val ákveðnar stéttir hafi um lífeyrissparnað.

Hún bendir á að það sé skylda að greiða í lífeyrissjóð, en sumir séu skyldugir til að vera aðilar að ákveðnum lífeyrissjóðum á grundvelli kjarasamninga á meðan aðrir hafi val. Frjálsir sjóðir, þ.e. þeir sem eru opnir öllum og yfirleitt tengdir fáum eða engum starfsgreinum, bjóða upp á að skipta greiðslu skyldubundna iðgjaldsins í sameign og séreign, gjarnan þannig að ekki meira en 8% fari í sameign.

„Í öllum þeim sjóðum þar sem fólk er skyldugt til að vera aðili, þá er valið almennt milli þess að greiða allt að 3,5% í tilgreinda séreign, eða ekki. Í sumum sjóðum, eins og LSR, greiðast öll 15,5% í samtrygginguna – þar er ekkert val.“

Sumir frjálsu sjóðanna bjóða upp á bundna séreign en allir bjóða upp á frjálsa séreign. Frjálsa séreignin er yfirleitt laus til innlausnar frá 60 ára aldri. „Fólk má taka hana út í eingreiðslu en flestir vilja fá hana í jöfnum greiðslum yfir ákveðinn tíma. Frjálsa séreignin er erfanleg og veitir þetta fyrirkomulag sjóðsfélögum tækifæri til að gera hluta af skyldusparnaðinum sínum erfanlegan. Í tilviki þeirra sem falla frá snemma á eftirlaunaaldri, eða áður en til hans kemur, geta talsverðar fjárhæðir runnið til erfingja,“ segir Tinna.

Fólk sem fer á örorku getur, að vissum skilyrðum uppfylltum, fengið greiddan örorkulífeyri sem tekur mið af hversu mikið einstaklingurinn hefur greitt í samtrygginguna. Sjóðfélagi sem greiðir til dæmis 8% af iðgjaldinu í samtrygginguna og 7,5% í frjálsa séreign hefur unnið sér inn töluvert minni réttindi til örorkulífeyris en sá sem hefur til að mynda greitt öll 15,5% í samtrygginguna, að gefnum sömu launum.

„Réttindi þeirra eru því lægri verði þau öryrkjar. Það er áhættan sem fólk tekur þegar það velur að setja hluta af iðgjaldinu í frjálsan séreignarsparnað. Telji fólk líklegt að það verði öryrkjar, þá getur verið skynsamlegra að greiða allt iðgjaldið í samtryggingu.“

Fréttin er hluti af lengir umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, sem kom út 3. nóvember.