Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um þjóðarsjóð á næstu vikum. Heiðar Guðjónsson fjárfestir furðar sig á hugmyndinni um þjóðarsjóð í hlaðvarpsþættinum Chess after Dark og spyr af hverju ríkisstjórnin hyggst ekki frekar einblína á að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp um þjóðarsjóð á næstu vikum. Heiðar Guðjónsson fjárfestir furðar sig á hugmyndinni um þjóðarsjóð í hlaðvarpsþættinum Chess after Dark og spyr af hverju ríkisstjórnin hyggst ekki frekar einblína á að greiða niður skuldir ríkissjóðs.

„Þetta er svo fráleit hugmynd vegna þess að ef þú ert með skuldir, borgaðu þá niður skuldirnar,“ segir Heiðar og bendir á að skuldir ríkisins samsvari tæplega 35% af þjóðarframleiðslu.

„Í hverju á að fjárfesta, í hlutabréfum á Íslandi? Eigið þið þá sem yfirmenn sjóðsins að velja allar stjórnir [fyrirtækja landsins]? Ætlar ríkið í raun og veru að þjóðnýta einkafyrirtæki á Íslandi? Eða eiga þeir að kaupa ríkisskuldabréf? Eru það ekki hagsmunaárekstrar að ríkið sé að kaupa sín eigin skuldabréf? Eru þeir ekki bara að fikta í markaðnum? Eða ætla þeir að kaupa erlendis, hvernig eru þeir sérfróðir um að ætla að kaupa erlendis?“

Hugmyndin með þjóðarsjóði, sem Bjarni Benediktsson talaði fyrir á tíma sínum í fjármálaráðuneytinu, er að hann nýtist sem eins konar varasjóður til að mæta hugsanlegum fátíðum efnahagslegum skakkaföllum, t.d. vegna náttúruhamfara.

Áformað er að arður frá orkufyrirtækjum í eigu ríkisins renni til sjóðsins. Til að setja fjárhæðina í samhengi greiddi Landsvirkjun út 20 milljarða króna í arð í fyrra.

„Út af hverju segja ‏þau ekki bara hreint út „við skulum stofna vogunarsjóð“?“ spyr Heiðar. „Við skuldsetjum ríkið, búum til rosalegar eignir hinum megin sem einhver á að sjá um að ávaxta. Almenningur sér um að borga skuldir [ríkissjóðs] og svo bara sjáum við hvernig þetta virkar.“

Heiðar segir að ef setja eigi arð frá ákveðnum ríkisfyrirtækjum í „sér skúffu í fjármálaráðuneytinu“ þá hafi það í för með sér að ekki sé hægt að nýta þá fjármuni til að mæta fjárlagahalla. Fyrir vikið þyrfti þá að hækka skatta eða draga úr ríkisútgjöldum enn frekar til að ná jafnvægi í ríkisrekstrinum.

„Það yrði þá í fyrsta sinn sem maður myndi sjá ríkisstjórnina tala um eitthvað slíkt. Það er ekki að fara að gerast,“ segir Heiðar um mögulega lækkun ríkisútgjalda. „Þannig að [ríkissjóður] er með fjárlagahalla og það er bara verið að auka við hallann, vegna þess að í stað þess að taka arðgreiðslur úr ríkisfyrirtækjunum og setja á móti hallanum þá eru þær settar í sér sjóð.“

Við samþykkt fjárlaga 2024 var áætlað að ríkissjóður yrði rekinn með 51 milljarðs króna halla, eða sem nemur 1,1% af VLF, en til samanburðar er áætlað að hallinn hafi verið um 1,3% í fyrra. Gera má ráð fyrir að hallareksturinn verði nokkuð umfram þessar áætlanir sökum aðgerða stjórnvalda vegna stöðunnar í Grindavík.

Í samtali við RÚV í síðustu viku sagði Þórdís Kolbrún að eignir sjóðsins yrðu ekki byggðar upp fyrr en búið væri að ná skuldastöðu ríkissjóðs í betra horf eftir hallarekstur í Covid-faraldrinum. Hún hyggist leggja frumvarpið, sem var upphaflega kynnt árið 2018, aftur fram svo það fái þinglega meðferð í ár.

Heiðar ræðir um áform ríkisstjórnarinnar um stofnun þjóðarsjóðs frá 42:56-46:00.