Endurskoðunar- og ráðgjafarfyrirtækin hafa eins og önnur fyrirtæki ekki farið varhluta af ástandinu sem útbreiðsla kórónuveirunnar og aðgerðir vegna hennar hafa valdið. Síðustu misseri hefur háönnin í endurskoðun og gerð ársreikninga átt sér stað en þar hafa áhrifin verið lítil að sögn framkvæmdastjóra tveggja fyrirtækjanna.
Friðgeir Sigurðsson, forstjóri PwC, segir að endurskoðunarhluti fyrirtækisins hafi enn sem komið er orðið fyrir litlum áhrifum þó að meiri óvissa sé með framhaldið.
„Þetta ástand sem hellist yfir okkur núna kemur á háönn í endurskoðuninni og í raun og veru er sú vinna á fleygiferð áfram og mikið að gera hjá okkur. Á þessum tíma árs erum við að mestu að vinna fyrir okkar stærstu viðskiptavini, þá sem eru með endurskoðunarskyldu og eru stór og öflug fyrirtæki, lífeyrissjóðir eða stofnanir. Það er í raun ekkert stopp á þeirri vinnu en þetta er hins vegar tvíþætt fyrir okkur. Það er nóg að gera en svo er spurningin hvaða áhrif hefur þetta á okkar viðskiptavini.
Þar sem við erum að vinna núna fyrir stærri aðilana erum við almennt að gera ráð fyrir að þeir eigi auðveldara um vik að standa þetta af sér. Auðvitað erum við líka að vinna fyrir aðila í ferðaþjónustunni sem sumir hverjir eru þokkalega stórir og maður skynjar strax að þeir standa frammi fyrir mikilli óvissu.
Enn sem komið er erum við ekki að verða fyrir miklum áhrifum í endurskoðuninni. Framundan eru hins vegar verkefni fyrir minni aðila sem taka oftast við þegar kemur lengra inn í vorið og eru svo kláruð yfir sumarmánuðina. Þar erum við að gera ráð fyrir að sé meiri óvissa sem gæti haft áhrif á okkar vinnu.“
Samdráttur í fyrirtækjaráðgjöf
Fyrirtækin sinna þó ekki einungis endurskoðun heldur er ýmiskonar ráðgjöf einnig hluti af starfsemi þeirra þó munur sé hver stór hluti hún er af tekjum og þá hve mikið er reglulegt. Vegna mikillar óvissu í efnahagslífinu hefur hægst verulega á verkefnum við kaup og sölu fyrirtækja og hefur öll vinna sem varðar áreiðanleikakannanir, verðmöt og aðra ráðgjöf hvað það varðar dregist verulega saman. Á sama tíma hefur önnur reglulegri þjónusta utan endurskoðunar þó haldið velli.
Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .