Selvík, félag í eigu Róberts Guðfinnssonar, eiginkonu hans Steinunnar R. Árnadóttur og fjölskyldu, var rekið með 135 milljóna króna tapi í fyrra en árið áður hagnaðist félagið um 57 milljónir króna.

Selvík, félag í eigu Róberts Guðfinnssonar, eiginkonu hans Steinunnar R. Árnadóttur og fjölskyldu, var rekið með 135 milljóna króna tapi í fyrra en árið áður hagnaðist félagið um 57 milljónir króna.

Rekstrartekjur námu 237 milljónum króna, samanborið við 352 milljónir króna árið áður. Munaði þar mest um að tekjuliðurinn seld gisting lækkaði úr 261 milljón niður í 8 milljónir en í byrjun árs 2022 hætti félagið rekstri Sigló Hótels.

Keahótel tók þá við rekstri hótelsins og tengdrar starfsemi og gerði 17 ára leigusamning. Húsaleigutekjur Selvíkur námu 144 milljónum í fyrra og hækkuðu um 92 milljónir milli ára. Undir rekstur Sigló Hótels fellur auk hótelsins sjálfs veitingastaðirnir Sunna, Rauðka og Hannes Boy, ásamt Sigló gistiheimili.

Selvík fjárfesti um 1,5 milljörðum króna í eignarhluti í öðrum félögum í fyrra. Í viðtali við ViðskiptaMoggann fyrir tveimur árum sagði Róbert að hann hafi verið með tvær einingar í uppbyggingarfasa á Siglufirði. Annars vegar ferðaþjónustu og hins vegar líftæknifyrirtækið Genís. Genís hafi kallað á mikla athygli og hann hafi því þurft að velja á milli þess að sinna Genís vel eða ferðaþjónustunni.

Má því ætla að Róbert og fölskylda hafi sett eina og hálfa milljarðinn inn í rekstur Genís, en í lok árs 2022 átti Selvík 24,9% hlut í líftæknifélaginu meðan eignarhluturinn var 3,7% árið áður. Tæplega fjórðungshluturinn í Genís er metinn á rúmlega 1,7 milljarða í bókum Selvíkur í fyrra en árið áður var bókfært virði 3,7% hlutarins 188 milljónir.

Fyrir tæpu ári síðan var einmitt greint frá því að Genís hafi lokið 2,4 milljarða króna hlutafjáraukningu. Meðal fjárfesta sem komu inn sem nýir hluthafar í kjölfar hlutafjáraukningar voru Andri Sveinsson, Sigþór Sigmarsson og tryggingafélagið TM.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu sem kom út á miðvikudaginn.