Luiz Inacio Lula da Silva hafði betur gegn Jair Bolsonaro í forsetakosningunum í Brasilíu í gær. Hinn 77 ára gamli Lula, sem var forseti árin 2003-2010, tekur aftur við embættinu 1. janúar næstkomandi. Það stefnir nú í vinstristjórn hjá stærstu þjóð Suður-Ameríku.

Lula hlaut 50,9% atkvæða en sitjandi forsetinn Bolsonaro fékk 49,1% atkvæða. Eftir að búið var að telja helming atkvæða leiddi Bolsonaro með 50,3%.

„Frá og með janúar 2023, mun ég fara með völd í þágu 215 milljónir Brasilíumanna, ekki aðeins þá sem kusu mig. Við erum sameinuð, eitt land, ein frábær þjóð,“ sagði Lulu í sigurræðu sinni. „Við viljum ekki berjast lengur. Við erum þreytt á að horfa á hvert annað sem óvini.“

Lula var dæmdur í fangelsi árið 2018 fyrir að þiggja mútur. Hann sat inni í nær tvö ár þar til dómurinn var felldur úr gildi.