Ljósaverslunin Lumex var í liðinni viku dæmd til að greiða tékkneska birgjanum Ligman Europe rúmlega 15 þúsund evrur, eða tvær milljónir króna ásamt dráttarvöxtum vegna ógreidds reiknings.
Lumex hafði um árabil selt vörur tékkneska birgjans, og taldi að viðskiptasamband þeirra hafi borið öll einkenni umboðssölu þó að enginn skriflegur samningur hafi verið gerður um viðskiptin. Fyrirtækið hafði eitt miklum tíma og fjármunum í að kynna vörur Ligman hér á landi, byggja upp viðskiptasambönd og koma vörunum í sölu, báðum aðilum til hagsbóta.
Viðskiptasambandi aðilanna lauk skyndilega þegar að Ligman ákvað að færa öll sín viðskipti til Reykjafells ehf., ekki hafi verið tilkynnt um þau kaflaskil heldur hafi verslunin einfaldlega fengið synjun við pöntun vara vegna nýrra verkefna.
Sökum þessa sat Lumex uppi með töluverðan óseldan lager sem ómögulegt var fyrir félagið að koma í verð, til viðbótar hafi það misst fjölmörg viðskiptasambönd. Vildi verslunin fá að skila hinum óselda lager til skuldajafnaðar við kröfu Ligman, en samkvæmt lögum umboðssöluviðskipti eigi umboðssölumaður rétt á greiðslu vegna samningsslita.
Héraðsdómur hafnaði málatilbúnaði Lumex á þeim grundvelli að lög um umboðssöluviðskipti geri skýlausa kröfu um að umboðssölusamningar séu skriflegir. Sú var ekki raunin í viðskiptum aðilanna og því gat verslunin ekki byggt rétt sinn á þeim grundvelli.