Samstæða Lyfju hagnaðist um 520 milljónir árið 2021 samanborið við 438 milljónir árið áður. Tekjur námu 14 milljörðum króna og jukust um 13% milli ára sem gerir 30% aukningu frá 2019, en fram kemur í ársreikningi að tekjur af sóttvarnarvörum hafi verið yfir áætlun á síðasta ári.
Á móti hafi þó komið ýmis aukinn kostnaður vegna farsóttarinnar og viðbragða við henni. Launa- og annar rekstrarkostnaður nam ríflega 3,2 milljörðum og hækkaði um 7,5% milli ára og 16% frá árinu 2019.
Heildareignir í árslok í fyrra námu 9 milljörðum og eigið fé 4,3 milljörðum. Eiginfjárhlutfall var því 48% og lækkaði lítillega milli ára.
Greiddar voru 300 milljónir króna í arð í fyrra samanborið við 55 árið áður, og ekkert árin þar áður, og í ár er hann sagður verða allt að 500 milljónir, en ákvörðun um greiðslu hans verður tekin á aðalfundi.
Greidd laun námu rétt um 2 milljörðum króna og hækkuðu um ríflega 5% en ársverk voru 240 og fjölgaði aðeins um eitt milli ára. Meðallaun voru því 692 þúsund krónur á mánuði og hafa hækkað um 17% frá árinu 2018.
Samstæðan, sem er í 99,99% eigu SID, samanstendur af Lyfju og dótturfélögum, Árkaupum, Heilsu, Heilsuhúsinu, Mengi og Opnu.
Fréttin birtist í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.