Sigurður Lárus Hall, betur þekktur sem Siggi Hall, var ráðinn inn sem framkvæmdastjóri Food and Fun skömmu eftir stofnun hennar og hefur gegnt því hlutverki alla tíð síðan þá. Sonur hans, Óli Hall, hefur einnig haldið utan um hátíðina og er nú orðinn framkvæmdastjóri í dag.
„Þetta byrjaði sem samstarfsverkefni milli Icelandair, ferðamannaráðsins í New York og íslensks landbúnaðar til að auka vetrarferðamennsku á Íslandi. Hátíðin var barn síns tíma en hefur breyst töluvert síðan þá. Túrisminn hefur til dæmis aukist og nú er troðfullt allan febrúar og marsmánuð hvort er.“
Food and Fun byrjar 6. mars nk. og stendur yfir til 10. mars. Í ár eru 18 veitingastaðir sem taka þátt í hátíðinni, þar á meðal Fiskimaðurinn, Apótek, Grand Brasserie og Tres Locos. Veitingastaðirnir munu þá allir bjóða upp á fimm rétta matseðil sem verður á sama verði, eða 11.990 krónur.
„Hátíðin er orðin þekkt um allan heim en hingað koma margir kokkar sem eru vel þekktir eða verða vel þekktir,“ segir Siggi og bætir við að margir kokkar sem eru stór nöfn í dag hafi áður komið á Food and Fun.
Nánar er fjallað um Food and Fun hátíðina í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.