Mannauðsdagurinn 2023 verður haldinn á föstudaginn í Eldborgarsal í Hörpu en hann hefur verið haldinn síðan 2011. Í fyrra var uppselt og sóttu þá um 800 gestir og 65 fyrirtæki ráðstefnuna en í ár er búist við meira en 1.000 gestum.

Unnur Ýr Konráðsdóttir, mannauðsstjóri hjá Lucinity og stjórnarmeðlimur í Mannauði , segir að það sé mikið gleðiefni að sjá hve mikið viðburðurinn hefur stækkað frá því hann var fyrst haldinn fyrir 12 árum síðan og að það sé búið að færa ráðstefnuna yfir í Eldborgarsal.

„Þetta er stærsta ráðstefna í mannauðsmálum og því sem tengist stjórnun á mannauði á Íslandi. Þetta er heldur ekki bara fyrir mannauðsfólk, þetta er líka fyrir stjórnendur og alla sem hafa áhuga á mannauðsmálum innan fyrirtækja,“ segir Unnur.

Fram til ársins 2015 var mannauðsfélagið eingöngu opið íslenskum mannauðsstjórum en á aðalfundi félagsins árið 2015 var lögum félagsins breytt á þann veg að allir þeir sem starfa við mannauðsmál í íslenskum fyrirtækjum og stofnunum geta sótt um aðild að félaginu. Árið 2019 var félagið einnig opnað fyrir þeim sem sérhæfa sig í ráðgjöf og sölu á mannauðstengdri þjónustu.

„Mannauðsmál sem slík eiga erindi við nánast alla í öllum fyrirtækjum og þá sérstaklega þá sem eru að stýra öðru fólki eða leiða annað fólk. Til að tryggja það að við séum með eftirsóknarverð fyrirtæki og vinnustaði þá skiptir máli að sá sem er að leiða og stýra viti um hvað mannauðsmál snúast.“

Frá því viðburðurinn var fyrst haldinn var mikil áhersla einnig lögð á að fá erlenda fyrirlesara til landsins með málefni sem voru talin áhugaverðust á hverjum tíma fyrir sig og myndu hafa sem mest áhrif.

„Við viljum að fólk labbi út af ráðstefnunni með ný verkfæri í verkfæratöskunni“

„Í ár verður til að mynda Thomas Geuken frá Copenhagen Institute of Future Studies með erindi á ráðstefnunni þar sem hann mun fara yfir hvernig við getum undirbúið okkur fyrir framtíðina. Miðað við hversu hratt allt er að gerast þá skiptir mjög miklu fyrir alla að vera undirbúnir undir hvernig vinnustaðurinn mun líta út eftir nokkur ár.“

Unnur segir að mannauðsmál sem slík hafi þróast mjög hratt undanfarin ár. Gamla skilgreiningin, starfsmannastjóri, hafi breyst í mannauðsstjóra og er þróunin svipuð erlendis. Á ensku er til að mynda byrjað að nota hugtakið „People and Culture“ í stað „Human Resources“.

„Við viljum að fólk labbi út af ráðstefnunni með ný verkfæri í verkfæratöskunni og hafi breytta sýn á það hvernig framtíðin líti út. Með það í huga getum við verið undirbúin fyrir framtíðina þannig að íslenskt atvinnulíf geti blómstrað. Þá geti fólk litið til okkar þegar það hugsar hvernig best sé að bregðast við breytingum og hvernig við getum aðlagað okkur að þessum breytta nútíma sem við búum í.“