Fregnir af því að Marel og John Bean Technologies (JBT) hafi náð saman um helstu skil­mála væntan­legs yfir­töku­til­boðs gáfu fjár­festum byr undir báða vængi en velta í Kaup­höllinni hefur verið heldur dræm síðustu daga.

Úr­vals­vísi­talan OMXI 15 hækkaði um 2,14% og var velta í við­skiptum dagsins hátt í 10 milljarðar króna.

Mesta veltan var með bréf Marels en gengi Marels hækkaði um tæp 5% í 3,7 milljarða króna við­skiptum. Dagsloka­gengi fé­lagsins var 510 krónur.

Sam­kvæmt til­boði JBT hafa hlut­hafar Marels val um þrjár greiðslu­leiðir, kjósi þeir að ganga að val­frjálsu til­boðinu. Fyrir hvern hlut sinn í fé­laginu munu þeim bjóðast:

  • 3,6 evrur í reiðu­fé – sem sam­svarar 541 krónu á gengi dagsins í dag
  • 0,0265 hlutir í JBT og 1,26 evrur í reiðu­fé – að saman­lögðu and­virði 561 króna í dag
  • 0,0407 hlutir í JBT – að and­virði 570 krónur í dag

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech hækkaði síðan um rúm 2% í 2,2 milljarða króna veltu. Hluta­bréfa­verð líf­tækni­lyfja­fé­lagsins hefur tekið tölu­verða dýfu síðast­liðinn mánuð. Þrátt fyrir hækkanir dagsins hefur gengi Al­vot­ech lækkað um tæp 22% frá byrjun mars.

Anil Okay, fram­kvæmda­stjóri við­skipta hjá Al­vot­ech, greindi frá því í gær að fé­lagið væri langt komið í við­ræðum um sölu­samning við stóran inn­kaupa­aðila trygginga­fé­laga á banda­ríska markaðnum vegna sölu á AVT 02 eða Simlandi, hlið­stæðu Al­vot­ech við Humira (adali­mu­mab) í háum styrk með út­skipti­leika.

Velta með bréf Arion banka fór einnig yfir milljarð er gengi bankans hækkaði um tæp 2% í við­skiptum dagsins. Hluta­bréf í Kviku banka hækkuðu um tæp 3% í um 700 milljón króna veltu.

Þá tók gengi Icelandair einnig við sér og hækkaði um rúm 3% í 344 milljón króna við­skiptum en gengi flug­fé­lagsins hefur verið að nálgast eina krónu síðustu við­skipta­daga. Dagsloka­gengi Icelandair var 1,09 krónur.