Hlutabréf allra félaga á aðalmarkaði Kauphallarinnar lækkuðu í 3,8 milljarða króna viðskiptum í dag. Hlutabréf fjórtán félaga af 22 á aðalmarkaðnum lækkuðu um meira en 2%. Úrvalsvísitalan féll sjötta viðskiptadaginn í röð og stendur nú í 2.529,8 stigum. Hún hefur ekki verið lægri síðan í árslok 2020.
Marel, sem vegur þyngst í vísitölunni, lækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 5,2% í 400 milljóna króna viðskiptum. Gengi Marels stendur nú í 476 krónum á hlut og hefur ekki verið lægra síðan í febrúar 2019.
Til að setja þetta í samhengi þá voru hlutabréf Marels tvískráð í hollensku Euronext kauphöllina í júní 2019. Hlutabréfaverð Marels í þeirri kauphöll stendur í 3,4 evrum, sem er einungis 3% lægra en þegar það fór lægst í 3,3 evrur í mars 2020. Taka skal þó fram að hlutabréfaverðin sem hér er vísað í eru ekki leiðrétt fyrir arðgreiðslum.
Stærsti hluthafi Marels er Eyrir Invest með 24,7% hlut. Stærstu hluthafar Eyris Invest eru feðgarnir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, og Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris, sem samtals eiga 38,5% hlut í Eyri. Næstir á eftir feðgunum í hluthafaröð Eyris eru Landsbankinn, Lífeyrissjóðir starfsmanna ríkisins (LSR) og Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) sem eiga hvert um sig 11-14% hlut. Þá eiga lífeyrissjóðirnir Gildi, LIVE og LSR hver um sig yfir 5% beinan hlut í Marel.
Hlutabréf Arion banka og Kviku banka lækkuðu einnig um meira en 3,7% í dag. Gengi Kviku stendur í 18,1 krónu og hefur ekki verið lægra síðan í febrúar 2021. Þá lækkaði hlutabréfaverð Icelandair um 3,3% og er komið niður í 1,76 krónur.