Hlutabréfaverð Marels hefur fallið um ríflega 3% í fyrstu viðskiptum í dag, mest af félögum aðalmarkaðarins, og stendur í 490 krónum þegar fréttin er skrifuð, samanborið við 506 krónur við lokun Kauphallarinnar í gær.

Fleiri félög í Kauphöllinni hafa lækkað í morgun, sem má að líkindum rekja að hluta til lækkana á bandaríska hlutabréfamarkaðnum í gær. Helstu bandarísku hlutabréfavísitölurnar lækkuðu um 1,5%-3,4% eftir vaxtaákvörðun Seðlabanka Bandaríkjanna.

Evrópska Stoxx Europe 600 vísitalan hefur lækkað um 0,9% frá opnun markaða í dag. Breska FTSE 100 hefur lækkað um 0,4%.

Marel birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung í gærkvöldi. Hagnaður félagsins dróst talsvert saman frá sama tímabili í fyrra. EBIT-framlegð félagsins batnaði þó úr 6,3% í 10,3% á milli annars og þriðja fjórðungs. Marel tilkynnti einnig um nýtt 300 milljóna dala sambankalán til þriggja ára.

Í uppgjörinu kom fram að frjálst sjóðstreymi hafi verið neikvætt um 34,8 milljónir evra á fjórðungnum, eða um 5 milljarða króna. Neikvætt frjálst sjóðstreymi er rakið til lægri EBITDA-framlegðar, aukinna fjárfestinga í innviðum og óhagstæðra hreyfinga í hreinu veltufé.

Auk uppgjörs Marels var tilkynnt í gærkvöldi um að Eyrir Invest, stærsti hluthafi Marels, hefði náð samkomulagi við fjárfestingarsjóðina JNE Partners LLP og The Baupost Group um 175 milljóna evra lán, eða sem nemur 25 milljörðum króna, til fjögurra ára.

Með samkomulaginu öðlast sjóðirnir rétt til að eignast allt að 8,1% hlut í Marel frá Eyri í lok lánstímans.